Verðmæti steinbítskvóta

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:11:03 (1906)

2001-11-21 15:11:03# 127. lþ. 33.8 fundur 213. mál: #A verðmæti steinbítskvóta# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrirspurnin er í fjórum liðum. Fyrsti liðurinn varðar markaðsverðmæti steinbítskvótans í heild sinni. Ég treysti mér ekki til að meta það. Ég tel að slíkt mat sé háð aðstæðum hverju sinni og aðstæðum hjá þeim einstöku aðilum sem kaupa mundu aflahlutdeild og af því sé ekki hægt að gefa einhverja raunnhæfa heildarmynd.

Í öðru lagi var spurt um aflamark innan ársins. Úthlutun á grundvelli aflahlutdeildar var 8.870 tonn á síðasta fiskveiðiári. Bætur vegna skerðingar afla á innfjarðarrækju voru 65 tonn og úthlutun á grundvelli krókaflahlutdeildar voru 8 tonn, aflamark í steinbít var því alls 8.943 tonn.

Í þriðja lagi var spurt um varanlega aflahlutdeild. Henni var að sjálfsögðu úthlutað 100%. Ég leitaði upplýsinga hjá Fiskistofu. Fiskistofa hefur ekki upplýsingar um verð á aflahlutdeild og ósk um upplýsinga frá aðilum sem miðla aflamarki og aflahlutdeild bar takmarkaðan árangur. Samkvæmt þeim var verð aflahlutdeildar í steinbít 160--250 kr. á fiskveiðiárinu 2000/2001. Upplýsingum frá þessum aðilum bar hins vegar ekki saman. Einn taldi að verðið hefði verið um það bil 160 kr. kg allt fiskveiðiárið og annar að það hefði verð á bilinu 200--250 kr. allt fiskveiðiárið.

Síðan var spurt um verð á steinbítsaflamarki, hvernig það hefði þróast. Verðið var á bilinu 25--42 kr. á kg fiskveiðiárið 2000/2001 og þessu eru gerð betri skil á línuriti sem verið er að dreifa, með leyfi, herra forseta. Verðþróun tímabilsins frá 1. sept. 2000 til 31. maí 2001 er meðalverð á aflamarki samkvæmt niðurstöðum uppboðs á Kvótaþingi. En verðþróun frá 1. júní til 31. ágúst 2001 er hámarksverð á aflamarki í steinbít á dag samkvæmt skráningu Fiskistofu. En eins og hv. þm. muna voru gerðar breytingar á viðskiptum með aflamark í vor. Hámarksverð á þess tímabili í skráningu Fiskistofu er talið ,,eðlilegt``, þ.e. það sveiflaðist ekki mikið frá degi til dags. Hins vegar er ljóst að verð á umtalsverðum hluta skráðra viðskipta sýna ekki raunverð og meðaltalið samkvæmt þessum skráningum hefur því takmarkað upplýsingagildi.

Ég vona, herra forseti, að þessar upplýsingar gagnist einhverjum í því sem þeir eru að athuga hvað varðar steinbítinn.

Ég vil hins vegar segja það vegna orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að með því að ein tegund sé tekin út úr kvóta þá er ekki verið að innkalla neitt. Þá er ekki verið að fyrna neitt. Þeir bátar sem um ræðir hafa áfram veiðileyfi og geta haldið áfram að veiða steinbít. Hins vegar er það rétt að hugsanlega hafa þá fleiri aðilar leyfi til þess að veiða eitthvert magn af steinbít. Einmitt það var mönnum áhyggjuefni þegar steinbíturinn var tekinn út úr kvóta síðasta vor og umræðan sem af því spratt var mjög athyglisverð. Kannski mætti segja að hún hafi orðið til þess að opna augu mjög margra fyrir kostum aflamarkskerfisins. Það tryggir þeim sem eru í aflamarki ákveðinn stöðugleika og ákveðinn aðgang að veiðiheimildunum. Í frjálsum veiðum er um meiri óvissu að ræða. Ég held að þessi umræða hafi verið mjög upplýsandi og athyglisverð og í raun orðið til að styrkja kvótakerfið.

Mér heyrist að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sé með málflutningi sínum og fyrirspurnum óneitanlega að gagnrýna þennan möguleika og þá ákvörðun að hægt sé að taka tegundir á þennan hátt úr kvóta þó að út af fyrir sig þurfi það ekkert að hafa með ráðleggingar Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla að gera, svo fremi sem menn treysta sér til að stýra veiðunum þannig að heildaraflamark haldist.

Hins vegar heyrist mér, herra forseti, að hv. samflokksmenn hennar, sem hafa talað um þetta mál á undanförnum dögum, séu ekki alveg á sama máli og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir.