Verðmæti steinbítskvóta

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:19:55 (1909)

2001-11-21 15:19:55# 127. lþ. 33.8 fundur 213. mál: #A verðmæti steinbítskvóta# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það skiptir svo sem ekki miklu máli hvort hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur greinir á við flokksmenn sína, það er ekkert aðalatriði fyrir mig eða umræðuna, það er alveg hárrétt. Hins vegar finnst mér fullkomlega eðlilegt að ákvarðanir sjútvrh. séu gagnrýndar, sérstaklega þegar þær eru þess eðlis að hann tekur eina ákvörðun einn daginn og breytir þeirri ákvörðun síðar á sama ári.

Ég held að það þurfi ekki að vera neitt óeðlilegt við það, ef betri upplýsingar koma fram og betri rök, að menn breyti til og taki betri ákvörðun í seinna skiptið. Ég held að það sé þá í besta lagi og alveg ástæðulaust að gagnrýna það eitthvað sérstaklega. Það er hins vegar eðlilegt að það sé rætt. En ákvarðanirnar þurfa heldur ekki að vera handahófskenndar, eins og hv. þm. kallaði þær.

Hins vegar er ljóst að ráðherra hefur mjög miklar heimildir í þessum efnum. Lagaramminn stendur einfaldlega til þess. Ég held að hv. þm. þurfi ekki sérstaklega að gera því skóna að það sem gert hefur verið sé ekki byggt á vísindalegum grunni eða draga það eitthvað inn í það. Svarið er eins vel unnið og spurningarnar og fyrirliggjandi upplýsingarnar gefa tilefni til. Þær gætu hugsanlega verið betri og það getur vel verið að ástæða sé til að gera einhverjar breytingar á því.

Ég þakka hv. þm. fyrir samúð hennar í minn garð en get hins vegar lifað án þeirrar samúðar.