Jöfnun námskostnaðar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:22:17 (1910)

2001-11-21 15:22:17# 127. lþ. 33.10 fundur 290. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi DSn
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Drífa Snædal):

Herra forseti. Lög um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði er eitt af þeim tækjum sem við höfum til að tryggja að allir geti stundað nám óháð tekjum eða búsetu. Námsstyrkir sem veittir eru nemendum á framhaldsskólastigi skipta sköpum fyrir þá sem þeirra njóta. Reglugerð um jöfnun námskostnaðar var staðfest á þessu ári en nú þegar hafa komið fram stórkostlegir gallar á þeirri reglugerð. Til að úthluta styrkjum er landinu skipt í A-, B- og C-svæði eftir því hve langt er í næsta skóla. Þannig eru t.d. nemendur frá Akureyri og Reykjavík á svæði A en nemendur frá Dalvík á svæði C.

Nemi frá Akureyri sem leggur stund á hársnyrtiiðn þarf að fara til Reykjavíkur er samt á svæði A og fær þess vegna lægsta námsstyrk. Annar nemi frá Dalvík í sama námi fær fullan námsstyrk af því að hann er á svæði C. Báðir nemendur þurfa að flytja á milli landshluta til að geta stundað nám sitt. Af þessu má sjá að ekki er tekið tillit til þess hvort námið sem nemandinn hyggur á er kennt á heimasvæðinu heldur aðeins hvort t.d. iðnnám stendur þar yfir höfuð til boða. Nemendur búa því ekki aðeins við mismunun eftir því á hvaða svæði þeir lenda heldur og eftir því hvaða nám þeir leggja stund á. Til að bæta úr þessu hafa námsmannasamtök bent á að heppilegra væri að greiða styrki miðað við fjarlægð frá heimabyggð í stað ákveðinna svæða, t.d. mætti miða við það að ef námsmaður fer yfir 90 km frá heimili sínu til að stunda nám fái hann sjálfkrafa fullan styrk.

Einnig þarf að taka tillit til þess hvort ákveðið nám er kennt í þeim dreifbýliskjörnum sem nemendur búa í.

Annar agnúi sem þarf að sníða af reglugerðinni er að um leið og námsmaður nýtir sér rétt til námslána fellur réttur hans til dreifbýlisstyrks niður. Við vitum hins vegar öll að lán er lán en styrkur er styrkur. Af þessu tilefni langar mig að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. menntmrh. á þskj. 353:

1. Er fyrirhugað að breyta reglugerð um jöfnun námskostnaðar til að betur sé hægt að sinna því hlutverki að jafna aðstöðumun nemenda af landsbyggðinni, hvaðan sem þeir koma eða hvaða nám sem þeir ætla sér að stunda?

2. Er fyrirhugað að breyta reglugerðinni þannig að námsstyrkur komi til frádráttar við ákvörðun námslána?