Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 16:51:51 (1922)

2001-11-21 16:51:51# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Einarssyni fyrir hans störf í nefndinni og forsvar hér fyrir minnihlutaálitinu sem ég tel að sé mikilvægt að komi fram. Ég biðst velvirðingar á því að ég var ekki í salnum en ég lagði meiri áherslu á eyru mín en augu, að hlusta á þingmanninn í stað þess að vera í stöðugu sjónmáli við hann, og nam hvert orð er hann mælti.

Ég kem aðeins að einu atriði í ræðu hv. þm., því síðasta er hann ræddi um, þ.e. Byrginu á staðnum Rockville sem svo er kallaður á Miðnesheiði. Þar eru margir þeir sem eiga erfitt í samfélaginu og, eins og hann orðaði það með réttu, sumir þeirra eru á götunni. Ég tek undir með þingmanninum, þetta er afar mikilvæg starfsemi og vegna þess fór ég núna sérstaklega vegna fjárlagagerðarinnar, bæði vegna fjáraukalaganna og vegna fjárlagagerðarinnar, í heimsókn í Byrgið, skoðaði það með eigin augum og hitti þar forsvarsmenn og vistmenn. Það er mjög vekjandi og áhugavert að koma á þennan stað.

Það er verið að gera úttekt á Byrginu, fyrir því stendur félmrh. Sérstakur maður er í þeirri skoðun og henni mun ljúka innan fárra vikna. Hún mun svara spurningunum um þjónustuna, fjárþörfina og hvernig að þessu eigi að standa. Mér þykir því eðlilegt að standa að þessu með stuðningi þingsins með tvennum hætti, annars vegar með fjáraukalögunum eins og hér er gert og hins vegar með fjárlögum ef við höfum einhvern mátt til og fram mun koma ef af verður í tillögum okkar í fjárlögunum.