Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 19:02:59 (1933)

2001-11-21 19:02:59# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[19:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson, 5. þm. Vesturl. boðar hér mjög váleg tíðindi og að aðsteðjandi vandi sé í efnahagsmálum, þungar spár og þungar horfur fram undan.

Ég velti því fyrir mér hvernig hv. þm. getur fundið út að ástandið sé virkilega svona. Það er náttúrlega hægt að tala sig upp í það að hér sé allt að fara fjandans til. En ef maður lítur nú á staðreyndir málsins þá er t.d. ekki neitt atvinnuleysi á Íslandi. Helstu atvinnuvegir þjóðarinnar eru mjög sterkir eins og sjávarútvegurinn. Sjávarútvegurinn er í rauninni í blóma í dag. Og útflutningsgreinarnar eru að gera góða hluti. Það er engin heimsendaspá yfir þeim atvinnuvegi sem heldur nú uppi gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Lán sem eru í bönkum og opinberum stofnunum eru almennt í skilum. Fólk stendur sig vel í að borga af lánum sínum. Ég velti því fyrir mér hvað hv. þm. er eiginlega að tala um. Það er hægt að finna það út og getur vel verið að menn langi til að tala sig upp í það að hér sé allt að fara fjandans til. En staðreyndin er náttúrlega sú að svo er alls ekki.

Reyndar er til eitthvað sem heitir verðbólgumarkmið eða viðmið fyrir verkalýðsfélögin. Ég hef ekki heyrt að þau viðmið séu einhver ákveðin tala, heldur einhver tilfinning. Og menn geta haft það á tilfinningunni að þeir ættu að gera eitthvað. En spurningin er sú hvort raunhæft sé að mála ástandið með þessum hætti.