Fjáraukalög 2001

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 19:11:44 (1937)

2001-11-21 19:11:44# 127. lþ. 34.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Athygli vekur við 2. umr. fjáraukalaga að enn hefur fulltrúi annars stjórnarflokksins ekki talað eða tjáð sig um efnið sem er á dagskrá. Það má kannski túlka það svo að í rauninni sé vandi að ræða efnahagsmálin á þessum tímapunkti. En það gefst þá tækifæri til þess þegar fjárlögin koma til 2. umr.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að styrkja þarf stöðu þingsins hvað varðar vinnu og áhrif á fjárlögin, eins og reyndar aðra lagasetningu, en sérstaklega á fjárlagagerðina hér á Alþingi.

Það skiptir afar miklu máli að það sé þingið sem ráði ferð, en ekki framkvæmdarvaldið. Og að framkvæmdarvaldinu sé fyrst og fremst falið að vinna úr þeim ákvörðunum sem þingið tekur. Að sjálfsögðu verður þarna alltaf einhver togstreita á milli, en vald og möguleikar þingsins til að koma að þessu máli þurfa að vera afdráttarlausir.

Herra forseti. Ég vil í því sambandi minnast á að ég tel það mjög varasamt ef leggja á Þjóðhagsstofnun niður án þess einhver önnur hlutlaus stofnun komi eða stofnun á vegum þingsins sem getur unnið með þinginu við að meta efnahagshorfur og vinna óháð fjárlög og fjárlagatillögur. Eins og nú er háttað verður Alþingi í megindráttum að reiða sig á þá grunnvinnu og þá þekkingu sem ráðuneytin hafa, en það er fyllilega ástæða til að þarna verði breyting á og þingið styrkist í vinnu við fjárlagagerðina.

Einn liður í þeirri styrkingu, herra forseti, er að þingið samþykki fjáraukalög oftar á ári, það sé síðasta verk þingsins áður en það fer í leyfi að vorinu að endurskoða fjárlögin í ljósi nýrrar stöðu eða tillagna sem hafa komið fram, taka afstöðu til þeirra og leggja fram og afgreiða á þinginu þannig að hægt sé að vinna samkvæmt þeim ákvörðunum sem teknar eru fyrir fram og síðan aftur að haustinu að taka það sem nýtt hefur komið og afgreiða ný fjáraukalög.

Það er ekkert óeðlilegt að forsendur geti breyst á árinu og að taka þurfi til endurskoðunar einstök atriði án þess að taka upp öll fjárlögin og þá er alveg sjálfsagt að þingið hafi beina aðkomu að því að svo sé gert. Það er öllum fyrir bestu og styrkir stöðu þingsins og tryggir jafnframt eðlilega þinglega aðkomu að fjárlagagerðinni og að fjármálum ríkisins árið um kring.