Verklag við afgreiðslu fjárlaga

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 13:46:22 (1947)

2001-11-27 13:46:22# 127. lþ. 36.91 fundur 163#B verklag við afgreiðslu fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Taugaveiklun hæstv. ríkisstjórnar yfir ástandinu í efnahagsmálum blasir við og það að þessir hlutir skuli ekki fara rétta boðleið og vera unnir með eðlilegu móti, heldur bera að eins og raun ber vitni, segir mjög mikið um ástand mála á þessum bæ þrátt fyrir digurbarkaleg ummæli hæstv. forsrh. Eða hvar eru sparnaðartillögurnar sem hæstv. forsrh. boðaði þjóðinni á sunnudaginn um hádegisbilið að yrðu meðhöndlaðar í þingflokkum ríkisstjórnarinnar í gær? Hvar eru þær í dag? Það fréttist lítið af þeim.

Hæstv. utanrrh. kannaðist lítið við það í gærkvöldi í sjónvarpsþætti að samkomulag væri orðið eða niðurstaða fengin í eitt einasta atriði í þessum efnum og var allur hin véfréttarlegasti þegar talið barst að því hvar ætti að skera niður og hve mikið.

Því hefur ekki verið mótmælt hér, ekki af hæstv. forsrh., ekki af formanni fjárln. að enginn efnisþáttur frv. er frágenginn. Það er ekki eins og venjulega að útgjaldaflokkar fjárlaganna séu í öllum aðalatriðum afgreiddir við 2. umr. eins og vera ber. Þá fer hin efnislega afgreiðsla frumvarpa fram grein fyrir grein, lið fyrir lið. 3. umr. er til að ljúka afgreiðslunni.

Að vísu hefur oft hent að einstaka þáttum, eins og t.d. málefnum sjúkrahúsa, hefur verið frestað til 3. umr., stundum í samkomulagi. Afmarkaður þáttur málsins hefur verið eftir en frv. fullfrágengið á gjaldahlið að öðru leyti. Það er því mikil vankunnátta ef hæstv. forsrh. heldur að hann geti fullyrt það með réttu að þetta séu algjörlega eðlileg vinnubrögð. Þau eru það ekki.

Þetta þýðir að í reynd fer bara ein efnisumræða og ein efnisafgreiðsla fram, 3. umr. Þannig á það ekki að vera. Eða eru hv. stjórnarþingmenn svo vissir um óskeikulleik sinn að ekki gætu orðið þar mistök sem gott væri að eiga umræðu eftir til þess að leiðrétta? Annað eins hefur nú gerst.

Þessi vinnubrögð, herra forseti, afhjúpa sig algjörlega sjálf. Það er taugaveiklun og upplausn í stjórnarherbúðunum sem gerir það að verkum að í raun og veru er Alþingi niðurlægt með þeim hætti sem hér verður gert ef umræðan verður látin fara fram.