Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 14:01:33 (1954)

2001-11-27 14:01:33# 127. lþ. 36.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Við ræddum í upphafi þingfundar væntanlegar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar sem eru brýnar. Hér á að fara að leggja til 300 millj. kr. aukafjárveitingu til tveggja viðfangsefna, þ.e. til einkavæðingarnefndar til þess að standa straum af einkavæðingu, ráðgjöf og umsjón með einkavæðingu á Landssíma Íslands, Landsbanka Íslands og fleiru sem verið er að bjóða til sölu. Auk þess eru á fjárlögum 15,4 millj. í þetta verkefni þannig að samtals er verið að ráðstafa 315,4 millj.

Herra forseti. Mér finnst þetta alveg ástæðulaust. Ég tel að ekki eigi að samþykkja þessa fjárveitingu, allra síst á fjáraukalögum. Það er að ganga virkilega á snið og virkilega á svig við lög um fjárreiður ríkisins að taka svona inn með þessum hætti á fjáraukalögum, auk þess að leggja í verkefni sem er þjóðinni ekki þénugt.