Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:08:00 (1962)

2001-11-27 16:08:00# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður fjárln. rakti í upphafi ræðu sinnar forsendur fyrir fjárlagafrv. og hvað hefði breyst síðan þá, að gengið hefði breyst, það hefði snarlækkað, verðbólgan hefði vaxið, vextir væru áfram háir og samdráttur væri í þjóðarframleiðslu. Hann rakti líka ítarlega skyldur og ábyrgð fjárln. við vinnu sína gagnvart Alþingi.

Ég leyfi mér því að spyrja: Hvernig finnst hv. formanni fjárln. að lesa upp brtt. nefndarinnar við fjárlagafrv. sem hann var með hér eftir að hafa séð í Morgunblaðinu tilvitnun í hæstv. forsrh. þar sem hann tilkynnir alþjóð í gegnum fjölmiðla niðurskurð á fjárlögum um 3--4 milljarða kr., tilkynningu sem ekkert hefur verið rædd eða borin inn í fjárln. og nefndinni ber bara að taka á móti? Hvernig ætlar hv. formaður fjárln. að taka á þessum vinnubrögðum og samskiptum fjárln. og hæstv. ríkisstjórnar?