Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:11:53 (1965)

2001-11-27 16:11:53# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því eins og ég gerði áðan að formaður fjárln. skyldi hafður með í ráðum vegna þeirra gjörbreyttu aðstæðna sem eru í ríkisfjármálum. Mér hefði einmitt þótt það síðra og verra ef formaður fjárln. hefði ekki verið hafður með. Með því að hafa formanninn með í að fást við þær gífurlegu breytingar sem eru að verða á okkar efnahagsmálum sýnir ríkisstjórnin, sem leggur þetta frv. fram, að hún ber virðingu fyrir nefndinni. Hún viðurkennir að fjárlögin eru á höndum nefndarinnar og þess vegna var þetta með öllu eðlilegt, viðurkenning á því að það er Alþingi sem ber ábyrgð á frv. og lögunum.

Það er ekki aðeins í þessu efni sem formenn nefnda starfa með þeim sem leggja fram frv. Það er svo í öllum málum hér í þinginu að formenn nefndanna starfa með þeim sem flytja frumvörpin og þess vegna fagna ég því að oddvitar fjárln. voru með í undirbúningsstarfinu sem mun skila sér milli 2. og 3. umr.