Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:21:39 (1973)

2001-11-27 16:21:39# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir gott að það skýrðist að þetta dæmi um fíkniefnahundinn í Vestmannaeyjum var notað hér til að skerpa skilning okkar þingmanna og þjóðarinnar á skoðun hv. þm. á öllu fjárlagaferlinu.

Ég lít svo á að með fjárlögum standi þingið sjálft ekki í rekstri, heldur er það að veita fé til framkvæmdarvaldsins sem síðan sér um ráðstöfun þess og eftirlit. (Gripið fram í.) Þingið verður að treysta því að þær stofnanir, eftirlitsstofnanir og framkvæmdarvaldsstofnanir, sinni því eftirliti.