Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:22:40 (1974)

2001-11-27 16:22:40# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:22]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að taka undir það með ýmsum öðrum hv. þm. að fyrri hluti ræðu hv. formanns fjárln. var afar athyglisverður. Ég leyfi mér að kalla þann hluta ræðunnar stefnuyfirlýsingu nýs formanns fjárln. Þar var víða komið við. Þar var lögð áhersla á sjálfstæði þingsins og sjálfstæði fjárln. gagnvart fjárlagaferlinu og ástæða til þess að taka undir það. Þetta var afar þörf upprifjun í ljósi atburða síðustu daga.

Hins vegar er alveg óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm., vegna fréttar sem er í Morgunblaðinu í dag þar sem fram kemur að hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður fjárln. séu starfandi í vinnuhópi með embættismönnum fjmrn. Í fréttinni segir að þessi vinnuhópur hafi skilað útfærðum tillögum sínum.

Herra forseti. Hér blasir við að hv. formaður fjárln. virðist starfa í fleiri en einni fjárlaganefnd. Því er nauðsynlegt, herra forseti, að fá það algjörlega á hreint hvort þessi frétt er rétt eða röng.