Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:23:56 (1975)

2001-11-27 16:23:56# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir orð hans um fyrri hluta ræðu minnar og sömuleiðis fyrir að kalla það stefnumótun formannsins. Ég vil taka undir það með honum í því og leggja áherslu á það.

Svarið við spurningunni, um hvort fréttin sé rétt eða röng, er: Hún er rétt. Formaður og varaformaður fjárln. hafa ásamt þeim fulltrúum þess sem lagði frv. fram, þ.e. fulltrúum ríkisstjórnarinnar, unnið að hugsanlegum viðbrögðum vegna breyttra efnahagsaðstæðna. Með þessu á nefndin samstarf við þann sem lagði fram frv., þ.e. ríkisstjórnina. Það er þess vegna sem við erum einmitt komin svo langt í okkar starfi að við getum væntanlega lagt fram tillögur sem fyrst munu líta dagsins ljós í fjárln. og hvergi annars staðar. Hv. þm. hlýtur að skilja að slíkt er ekki hægt að hrista fram úr erminni, heldur krefst undirbúnings.

Ríkisstjórnin hefur viðurkennt mikilvægi fjárln. með því að hafa þessa tvo oddvita nefndarinnar með sér í samstarfi.