Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:26:27 (1977)

2001-11-27 16:26:27# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þm. sem hér talaði leggur sig alltaf fram um málefnalega framsetningu og ég virði það mjög. Þess vegna vil ég svara honum með sama hætti. Þegar ég sagði að fréttin væri rétt átti ég við að rétt væri að formaður og varaformaður hafa starfað í starfshópi. Mér var hins vegar ekki ljóst að þingmaðurinn skildi svarið á þann veg að þar lægju fyrir (EMS: Það stendur í fréttinni.) --- hv. þm., ég hef ekki blaðið fyrir framan mig --- útfærðar tillögur. Það er hins vegar ekki rétt í fréttinni.

Það liggja engar tillögur fyrir og voru ekki lagðar fram af þessum starfshópi, útfærðar tillögur, heldur aðeins hugmyndir um hvað til greina gæti komið til niðurskurðar eða tekjuöflunar. Það er hið rétta svar og ég biðst velvirðingar á því ef einhverjir hafa talið mig tvísaga hér um það miðað við það sem ég sagði í fjárln. Ég veit að hv. þm. veit að það var rétt sem ég sagði. Engar útfærðar tillögur liggja fyrir.