Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:22:21 (1988)

2001-11-27 17:22:21# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:22]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum nú að taka fjárlagafrv. til 2. umr. Í því tilefni hef ég veitt athygli í dag dálítið skrítnum viðhorfum sem ég átti ekki von á. Ég hélt að öllum væri ljóst hvernig staðið er að þessum málum. Fjárlagafrv. er flutt af ríkisstjórninni. Það er ríkisstjórnarmál og mjög eðlilegt að flutningsmenn frv., þ.e. ríkisstjórnin, hafi afskipti af sínu máli og þannig hefur það líka alltaf verið með öll fjárlagafrv., bæði fyrr og síðar.

Fjárln. tekur þessi mál til afgreiðslu og fer í gegnum þau. Meiri hluti fjárln. hefur alla tíð unnið með sinni ríkisstjórn, það þarf varla að koma neinum á óvart. Varla nein tíðindi með það. Ég fullyrði, herra forseti, að þessir hlutir allir eru í mjög eðlilegum farvegi, nákvæmlega eins og þeir hafa alltaf verið. Það þarf því ekkert að koma neinum á óvart.

Ég veiti því líka athygli að þegar forustumenn stjórnarandstöðunnar, 1. og 2. minni hluti koma hér, þá koma þeir og lesa upp ágæta stíla sem hefur verið dreift sem nál. og ég vil þakka fyrir það. Þetta eru vangaveltur um efnahagsmál og þar er margt þarflegt sagt. En það er engin umræða um fjárlagafrv. Ég ætla þá að sleppa því líka að tala um fjárlagafrv. (Gripið fram í: Heldur ekkert um að ræða.) Heldur ekkert um að ræða, er kallað fram úr salnum. En úr því þeir stílar eru um efnahagsmál, þá skulum við aðeins rifja eftirfarandi atriði upp.

Hvað er það, herra forseti, sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu á undanförnum missirum og árum? Hvað hefur breyst? Mikill hagvöxtur hefur verið allan tímann. En hvað hefur breyst í þjóðfélaginu? Það liggur alveg fyrir hvað hefur breyst. Samneyslan í samfélaginu hefur vaxið stórkostlega úr þeim vanalega farvegi sem var 21% af vergri landsframleiðslu, upp í það að vera núna rúm 24%. Hvað gerist þá þegar samneyslan vex? Eitthvað verður þá að láta undan. Það er náttúrlega ekkert sem getur látið undan nema þá fjárfestingarnar eða einkaneyslan. Við erum að horfa upp á það núna að íslenska krónan er að veikjast og ástæða til að hafa áhyggjur af því. Margir hafa slíkar áhyggjur og komið er inn á það í nál.

Það er rétt og satt að minni hlutinn hefur áhyggjur af efnahagsmálunum og ég tek undir það. En hvernig stendur á því að samneyslan hefur vaxið svona? Hvað er það sem vex í fjárlagafrv.? Hvað er það sem við vorum að bæta í atkvæðagreiðslunni um fjáraukalögin? Hvað er það sem hefur vaxið? Það er launakostnaður ríkisins. Hann hefur vaxið. Hann hefur vaxið gríðarlega. Og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Laun ríkisstarfsmanna og opinberra starfsmanna hafa hækkað mun meira en laun á almennum markaði. Með allri virðingu fyrir því góða fólki sem vinnur hjá hinu opinbera, þá er það nú samt svo að opinberir starfsmenn mega ekki og geta ekki gert kröfur til þess að launaþróun hjá þeim sé önnur en á almennum markaði. En það hefur gengið illa. Og ríkið hefur staðið sig ákaflega illa á þeim launamarkaði. Síðast í morgun vorum við að fá fréttir af því að verið er að semja um gríðarlega miklar kauphækkanir og ógæfan hjá hinu opinbera er nú svo mögnuð að þeir geta ekki einu sinni haft eina samninganefnd. Sveitarfélögin eru líka með sína samninganefnd og svo semja þeir í kross. Það er ekki hægt að búa við þetta. Og þetta er hlutur sem við verðum að taka á, við verðum að gera það, vegna þess að það er ófært annað. Ríkið getur ekki sinnt svona mikilli lausung í launamálum eins og það hefur gert.

Herra forseti. Ég vil þá minna hinn ágæta minni hluta, stjórnarandstöðuna, á að á undanförnum árum, undanförnum missirum, undanförnum mánuðum og vikum hefur það aldrei brugðist að hvenær sem opinberir starfsmenn hafa lent í launaátökum hefur verið krafist utandagskrárumræðu þar sem stjórnarandstaðan hefur átalið ríkisstjórnina og forustumenn hennar fyrir að verða ekki við þeim kaupkröfum. Svo koma þeir sömu menn hér, herra forseti, og tala um hina miklu eyðslu og lausatök ríkisstjórnarinnar á fjármálum sínum.

Menn verða að hugsa þetta í heild. Menn verða að vera ábyrgir í því sem þeir eru að gera. Og það er sannarlega rétt að ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu efnahagsmálanna núna vegna þess að meginaflið sem hefur staðið undir þeirri miklu þróun og hinu mikla jafnvægi sem hefur ríkt á íslenskum markaði, íslenskum vinnumarkaði og íslensku efnahagslífi, Alþýðusamband Íslands, sem öll síðustu tíu árin hefur samið hér af mikilli ábyrgð með hliðsjón af þjóðarhag í heild --- við getum staðið frammi fyrir því ef okkur tekst ekki að stöðva gengið sem ég trúi og vona að hægt verði að snúa við, að samningar losni. Og það er alveg skelfilegt fyrir alla, því það munu allir tapa á því.

Það er einmitt ástæða til, herra forseti, að fara yfir þann grundvallarmun sem hefur verið á afstöðu Alþýðusambands Íslands og hinni ábyrgu stöðu hennar og framgangi ríkisstarfsmanna á undanförnum árum, þar sem hver einasti aðili hefur reynt að nýta sér stöðu sína til að taka meiri kauphækkanir en hinn almenni verkamaður hefur fengið.

Þessu verður að linna, herra forseti. Því er ástæða til að rifja þetta upp og minna hina ábyrgu stjórnarandstöðu á að það er ekki nóg að koma einu sinni og segja: Sjá, vei þeim sem eyða miklum peningum, en hafa svo staðið fyrir kröfugerðinni um það allan tímann.