Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:30:04 (1989)

2001-11-27 17:30:04# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er með hreinum ólíkindum að hv. varaformaður fjárln. skuli koma í ræðustól á Alþingi í fjárlagaumræðunni, skamma hv. þingmenn fyrir að þeir ræði ekki fjárlagafrv. og halda síðan tölu sem gengur út á það að úthúða ríkisstarfsmönnum fyrir launakröfur undangenginna samninga og undangengins áratugar eftir því sem var að skilja á hv. þm.

Það er sem sagt ein ástæða fyrir hækkuðum ríkisútgjöldum liðinn áratug og það eru hækkanir launa ríkisstarfsmanna.

Herra forseti. Það er ekki samboðið hv. þm., varaformanni fjárln., að láta þessi orð sér um munn fara og gera lítið úr því að fólk í samfélaginu geri kröfu um að hafa laun sem eru hærri en 90 þús. kr. Það á við um verkamenn. Það á við um ríkisstarfsmenn. Og það á við um aðra. Hv. þm. veit fullvel að ríkisstarfsmenn drógust úr hófi aftur úr í launum miðað við það sem greitt var á hinum almenna markaði. Hann veit betur en að tala svona. Á sama tíma og hv. þm. lætur sér þessi orð um munn fara er hann að leggja til að frítekjumark á hátekjufólk verði hækkað þannig að ekki innheimtum við hátekjuskatt þetta árið.