Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:31:39 (1990)

2001-11-27 17:31:39# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndirnar um launaþróunina liggja allar fyrir. Menn geta lesið það í Hagtölunum sem komu út fyrir nokkrum dögum. Það getur hver og einn skoðað þetta. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir og eru ekkert launungamál, um öll síðustu tíu árin.

Aðalvöxturinn hjá ríkinu liggur í því að ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað stórkostlega vegna þess að verið er að bæta þjónustuna, auka hana og efla. Launahækkanirnar hafa verið mjög mikið umfram almenna markaðinn. Þetta er vöxtur ríkissjóðs og þetta liggur alveg fyrir. Ég get náttúrlega því miður ekki gert að því, herra forseti, þó að hv. þm. reiðist yfir því að ég fer yfir þetta. Ég er bara að tala um staðreyndir.