Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:34:42 (1993)

2001-11-27 17:34:42# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég vil mótmæla orðum 5. þm. Vestf., Einars Odds Kristjánssonar, sem talaði áðan. Ég vil taka upp varnarorð fyrir hönd opinberra starfsmanna, fyrir hönd sjúkraliða, fyrir hönd tónlistarkennara, sem voru núna að ljúka samningum eftir langvarandi samningalotur, eftir að hafa verið á annað ár samningslausir. Þeir voru að ná samningum sem rétt loða við það að gefa sambærileg laun og á hinum almenna vinnumarkaði.

Hvernig eigum við að bregðast við, herra forseti, ef starfsmenn flýja úr störfum sínum, ef stofnanir eins og heilbrigðisstofnanirnar standa berskjaldaðar eftir af því að starfsmenn flýja úr þessum störfum? Ef við aukum starfsemina á ýmsum sviðum þarf að fylgja þar mannafli og þeir starfsmenn þurfa að fá viðunandi laun.