Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:39:02 (1997)

2001-11-27 17:39:02# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru allt aðrir tímar núna en fyrir tíu, tólf árum þegar svokallaðir þjóðarsáttarsamningar voru gerðir. Við vorum þá með handstýrt þjóðfélag og þurftum að beita miklum þrýstingi til að þetta tækist.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. að þjóðarhagsmunir eru í húfi í dag varðandi það að við getum staðið vörð um íslensku krónuna. Það eru þjóðarhagsmunir.

Ég hefði trúað því og vil trúa því að menn sjái sameiginlega hagsmuni sína, að ríki, sveitarfélög, bankar, fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir og allir sjái sameiginlega hagsmuni sína í að taka stöðu með íslensku krónunni. (RG: Veit Davíð þetta?) Að taka stöðu með íslensku krónunni, í því liggja þjóðarhagsmunirnir. Það eru allra manna hagsmunir. Þess vegna vil ég trúa því að í hinu frjálsa markaðssamfélagi okkar sjái menn þetta og geri þetta.