Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:40:08 (1998)

2001-11-27 17:40:08# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra og þess vegna er afar mikilvægt að sem víðtækust samstaða náist um þær aðgerðir sem grípa þarf til.

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á fleira í ræðu sinni og það var hin sérkennilega nálgun á því hverjir bæru ábyrgð á hinum mikla vexti ríkisins, þ.e. útgjöldum ríkisins. Hv. þm. nefndi eðlilega að ákveðin útgjöld hefðu vaxið meira en önnur.

Það liggur hins vegar algjörlega ljóst fyrir að ríkisstjórnin hlýtur að bera alla ábyrgð í þessu máli. Það er rangt hjá hv. þm. að stjórnarandstaðan hafi ætíð komið hingað þegar kjarasamningar hafa verið lausir eða kjaradeilur verið og tekið undir alla þá kröfugerð sem lögð hefur verið fram. Áhersla hefur verið lögð á það að ríkisstjórnin reyndi að lægja öldur og ná sáttum vegna þess að vandinn á vinnumarkaðnum hefur, því miður, hin seinni ár verið í hinum opinbera geira. Hinn almenni markaður hefur verið allt annars eðlis og enginn órói verið þar meðan óróinn hefur allur verið í hinum opinbera geira. Það er alveg augljóst að ekki er hægt að kenna aðeins öðrum aðilanum um í þeim efnum. Ríkisstjórnin hlýtur að bera fulla ábyrgð í því.