Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:41:21 (1999)

2001-11-27 17:41:21# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Auðvitað ber ríkisstjórnin ábyrgð á þessu líka. Hún hefur sýnt allt of mikla linku í þessum launamálum. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að ríkið sé með sérstaka samninganefnd og sveitarfélögin með aðra. (Gripið fram í.) Auðvitað verða þeir að samræma sig í þessu og standa þessa vakt. Auðvitað verða þeir að gera það.

Auðvitað ber ríkið ábyrgð á aukningu. Við höfum verið að auka stórkostlega þjónustuna við borgarana. Á síðustu tíu árum hefur orðið til alveg heill málaflokkur sem heitir málefni fatlaðra. Mesta aukningin hefur orðið í þeim málaflokki af öllum málaflokkum sem hér eru til umræðu. Auðvitað ber ríkið ábyrgð á því. Við höfum verið að fjölga stórkostlega ríkisstarfsmönnum um leið og við höfum verið að auka og bæta kjör þeirra mjög mikið, meira en á almennum vinnumarkaði.

Auðvitað berum við ábyrgð á þessu. Það var enginn að segja annað. Við höfum alltaf gert það og munum gera það. En ástandið er svona eins og ég lýsti og því getur enginn mótmælt.