Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:42:33 (2000)

2001-11-27 17:42:33# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:42]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér var verulega brugðið þegar ég varð þess áskynja að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem ég hef einhvern tímann í þingræðu sagt að væri einn besti vinur ríkissjóðs, flutti fimm mínútna ræðu um fjárlög til 2. umr. Það kemur bersýnilega og best í ljós við ræðu þessa þingmanns að ríkisstjórnin er á fleygiferð við að komast hjá því að ræða þessi mál og það er eðlilegt að hæstv. ráðherrar hverfi héðan úr húsi um leið og fyrstu menn hafa talað hér í dag, og láti helst ekki sjá sig. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað var að gerast hérna áðan þegar ráðherrar streymdu í salinn, en það er víst atkvæðagreiðsla um afbrigði núna eftir nokkrar sekúndur.

Ég vildi því spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, varaformann fjárln., þar sem hann talar um að það séu þjóðarhagsmunir að verja íslensku krónuna, sem er hárrétt og allir verða að sameinast um: Skyldu ekki lausatök hæstv. ríkisstjórnar frá 1998--2001 og viðskiptahallinn vera þær tímasprengjur sem eru að springa í afturendann á hæstv. ríkisstjórn um þessar mundir?