Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 18:18:15 (2005)

2001-11-27 18:18:15# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Nú fer 2. umr. um frv. til fjárlaga fram. Frv. til fjárlaga er í raun fjárlagarammi sem lagður var fram strax í byrjun þings nú í haust. Sú vinna er unnin undir stjórn fjmrn. sem úthlutar hverju ráðuneyti ákveðinni fjárhæð til að vinna úr.

Eftir 1. umr. í þinginu fær fjárln. frv. til meðferðar og yfirferðar. Þessi vinna er unnin fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og í þeirri vinnu er farið yfir útgjöld ráðuneyta, starfsemi þeirra og stofnana ríkisins. Einnig leita fulltrúar sveitarfélaga, félagasamtaka og einstaklinga eftir styrk til ákveðinna viðfangsefna og verkefna til nefndarinnar.

Starf fjárln. er í raun mjög fjölbreytt, það er fróðlegt og um margt afar skemmtilegt. Hér er um mikla vinnu og yfirferð að ræða. Í nefndinni er afar gott samstarf hvar sem menn standa í flokki og fyrir það ber að þakka. Starfsmenn Alþingis vinna og þrekvirki á ári hverju. Tækninni fleygir fram og upplýsingakerfið verður fullkomnara og fullkomnara og flýtir fyrir störfum nefndarinnar. Þetta hefur gerbreyst á síðustu árum, þetta er mjög tímasparandi og vinnan er unnin samkvæmt áætlun undir öruggri stjórn og forustu formanns nefndarinnar, Ólafs Arnar Haraldssonar, og varaformannsins, Einars Odds Kristjánssonar.

Formaður fjárln. hefur farið yfir efnahagsforsendur, einstaka liði, í langri ræðu hér í dag. Í raun má líkja starfi fjárln. við að koma saman flóknu púsluspili sem hægt er að púsla saman á mismunandi vegu. Á síðustu árum hafa fjárlögin verið afgreidd með tekjuafgangi og að því er stefnt. Þetta er grundvallaratriði. Við stefnum enn að því að rekstrarafangur í fjárlögum verði 3,5 milljarðar í fjárlagagerð ársins 2002. Með þeim hætti erum við að búa í haginn fyrir framtíðina og það höfum við gert á undanförnum árum. Það er mikilvægt fyrir ríkissjóð að eyða ekki um efni fram, nákvæmlega það sama á við um einstaklingana og þetta á við um fyrirtæki og allan rekstur.

Segja má að við Íslendingar séum eyðslusöm þjóð og á Íslandi hefur verið viðvarandi viðskiptahalli sem er mjög alvarlegt mál í efnahagsstjórn þjóðarinnar. Úr viðskiptahalla hefur að vísu dregið að undanförnu en ég hef oft velt því fyrir mér hvort við ættum ekki að kenna meðferð peninga strax á seinni stigum í leikskólum. Á það nám mætti byggja áfram í grunnskólum og í framhaldsskólum. Við þurfum að kenna hvernig peningar verða til, um verðmætasköpun, hvað það þýðir að taka lán, hvað þýði að spara og staðgreiða. Þetta veit ég að er gert t.d. í nágrannalöndum okkar.

Kerfið sem við búum við er í raun og veru eyðslukerfi. Það er mjög sorglegt þegar ungt fólk, sem er að taka fyrstu sín skref út í lífið verður strax gjaldþrota vegna þess að það kann ekki að fara með það frelsi sem felst í notkun greiðslukorta, felst í því að taka bílalán og í að nota léttgreiðslur eða hvað þetta heitir nú allt saman. Ég er hlynntur frelsinu en frelsinu fylgir ábyrgð. Ábyrgð banka og lánastofnana er mikil í þessum efnum en það er eins og bankarnir verði ábyrgðarlausir ef hægt er að útvega ábyrgð þriðja aðila að lánum.

En hvað er það sem brennur á fólki í dag? Það sem brennur á fólki í dag er auðvitað allt sem tengist heilsu og velferð. Og hvernig stöndum við okkur í þeim efnum? Það er talað um að við búum við eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Við getum verið stolt af því. Ég er ekki hlynntur einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni, langt í frá. Ég er hins vegar hlynntur sjálfseignarstofnunum eins og Heilsustofnuninni í Hveragerði, Ási í Hveragerði, sem er elliheimili, og rekstri slíkra stofnana. Ég er mótfallinn einkarekstri í heilbrigðisþjónustu.

Ef við veltum fyrir okkur því sem fólk er að hugsa um þá hugsar hver og einn um atvinnu og framfærslu. Við getum verið stolt af því að það er nánast ekkert atvinnuleysi á Íslandi og við búum við gott velferðarkerfi. Fólk veltir líka fyrir sér menntun og menningarmálum. Og hvernig stöndum við í þeim efnum? Á Íslandi er gríðarlegt námsframboð. Ég sá m.a. í gær að hæstv. menntmrh. var að skrifa undir samning um að við förum að kenna arkitektúr í Háskóla Íslands, sem ekki hefur verið gert á Íslandi áður. (Gripið fram í: Listaháskóla Íslands.) Ég þakka hv. þm. fyrir að leiðrétta mig, það var Listaháskóli Íslands sem kemur til með að sinna þeirri kennslu. Það er auðvitað nýbreytni.

Síðan er annað sem skiptir miklu máli hér á landi, þ.e. að fólk hefur mikla möguleika á símenntun.

Fólk veltir líka fyrir sér samgöngumálum. Við erum sífellt að bæta samgöngukerfi þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum samt sem áður að stokka upp kerfið hjá okkur. Við þurfum t.d. að verja meiri peningum í tengivegakerfið. Það er ljóst að um 25% af tengivegum landsins eru t.d. í Suðurlandskjördæmi. Það er líka mjög mikið af tengivegum á Norðurlandi vestra, þessum gömlu kjördæmum. Í þessum tveimur kjördæmum eru u.þ.b. 50% af tengivegakerfinu og það er auðvitað mjög brýnt að verja meiri peningum til tengivega. (KPál: Og í einbreiðar brýr.) Hv. þm. Kristján Pálsson kallar hér fram í að einnig þurfi að fækka einbreiðum brúm. Ég get tekið undir það og þetta er góð ábending hjá hv. þm.

Þegar horft er á þessi mál með sanngirni þá stöndum við okkur í raun og veru vel, þó að alltaf megi gera betur. Stórstígar framfarir hafa átt sér stað á Íslandi í ríkisstjórnartíð Framsfl. og Sjálfstfl. Ef við horfum aðeins til baka, til ársins 1995 þegar Framsfl. kom í ríkisstjórn, þá var gríðarlegt atvinnuleysi hér á landi. Þá stóðu fyrirtæki afar veikt. Og eitt af markmiðum okkar var að auka störf í landinu um 12 þús. störf fram til aldamóta.

Við þetta hefur verið staðið. Stundum hafa nú reyndar þeir sem ekki eru mjög hlynntir okkur sagt að við höfum ekki staðið við þetta til fullnustu vegna þess að störfin urðu 14 þús. en ekki 12 þús. En þetta skiptir allt saman miklu máli.

Við megum ekki gleyma því að við lifum í síbreytilegu samfélagi. Í augnablikinu eru ýmsar blikur á lofti og við þeim aðstæðum þarf að bregðast. Atvinna og atvinnuuppbygging er og verður grundvöllur að velferð þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn er enn undirstaða velferðar þjóðarinnar og um sjávarútveginn verður að ríkja sátt. Í þeirri grein verður einnig að ríkja festa. Menn verða að vita við hvaða kerfi á að búa og við megum ekki sífellt breyta kerfinu með einu pennastriki þannig að los sé á þessari grein.

Það hefur orðið hnignun í hugbúnaðar- og tölvugeiranum sem við bundum reyndar miklar vonir við. Sama er að segja um verðbréfamarkaði nú um sinn.

Það er auðvitað visst áhyggjuefni að bændur þessa lands bera of lítið úr býtum en við getum verið mjög sammála um það að landbúnaður er mikill á Íslandi og landbúnaðarafurðir okkar eru mjög góðar, hvernig sem á það er litið, hvort sem við erum að tala um hefðbundinn landbúnað eða landbúnað í græna geiranum. Síðan eru líka á döfinni ýmsar hliðarbúgreinar sem skipta landsbyggðina miklu máli eins og landshlutabundin skógræktarverkefni, bæjarvirkjanir, þar sem framleitt er rafmagn úr bæjarlækjum og þess háttar. Þetta á allt að renna stoðum undir atvinnulíf í dreifbýli.

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Íslandi þó að blikur séu á lofti í þeim efnum, sérstaklega eftir það sem gerðist 11. sept. sl., en Íslendingar standa sig mjög vel í menningartengdri ferðaþjónustu, heilsutengdri ferðaþjónustu og fleira mætti nefna.

Ég má til með að nefna, þegar við erum að tala um uppbyggingu t.d. varðandi heilbrigðisþjónustu, að það er verið að byggja mjög myndarlegan barnaspítala í Reykjavík, Barnaspítala Hringsins. Það eru líka áform um að byggja við Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi. Það er mjög brýn framkvæmd og hún er reyndar á teikniborðinu. Þetta skiptir allt miklu máli. Hæstv. heilbrrh. hefur gert sérstaka samninga við Heilsustofnun í Hveragerði um áframhaldandi uppbyggingu þar.

Ég sé að hv. sunnlenskir þingmenn nikka til mín og eru greinilega ánægðir með þessar framkvæmdir eins og ég sjálfur. Það á líka við um hv. þm. af Austurlandi sem gengur hér fram hjá mér. (EMS: Hvor? Við erum tveir.) Það á við um báða, herra forseti.

Fjárln. hefur í seinni tíð beitt sér sérstaklega fyrir ákveðnum byggingarverkefnum, ákveðnum verkefnum sem skipta miklu máli fyrir landsbyggðina. Þar nefni ég fjarkennslu sem hefur gjörbreytt möguleikum fólks á landsbyggðinni til símenntunar. Fjárln. hefur líka lagt heilmikið fjármagn til landshlutabundinna skógræktarverkefna. Þessi verkefni tengja í raun saman dreifbýli og þéttbýli og skipta miklu máli.

Menningartengd ferðaþjónusta hefur einnig margoft komið upp og fjárln. hefur styrkt ýmis verkefni þar að lútandi. Þeir styrkir geta skipt mjög miklu máli, t.d. fyrir lítil byggðarlög. Þó að oft og tíðum sé um að ræða tiltölulega lágar fjárupphæðir geta slíkir styrkir skipt sköpum fyrir viðkomandi verkefni. Ýmislegt mætti telja upp í þeim efnum en eins og ég sagði hefur hv. formaður fjárln., Ólafur Örn Haraldsson, talið upp öll þessi verkefni sem skipta svo miklu máli.

Stundum hafa þingmenn í þessum sal talað um að gera þurfi eitthvað annað. Við höfum stundum leikið okkur að þeirri hugsun, að gera eitthvað annað. Þegar við horfum á þessi fjárlög sem við erum að leggja fram þá er þar fjöldi verkefna sem við getum talað um að séu eitthvað annað. Af því erum við stolt og eins og ég sagði áðan þá skipta þær upphæðir miklu máli fyrir þau byggðarlög og þau verkefni sem við erum að styrkja.