Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 18:36:37 (2010)

2001-11-27 18:36:37# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að inna eftir því hvort hæstv. fjmrh. er til staðar á þinginu.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að hæstv. fjmrh. er til staðar og forseti mun sjá til þess að hann gangi í salinn áður en langt um líður. Samkvæmt tölvubúnaði okkar er hann ekki langt undan.)

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan doka við þangað til hæstv. fjmrh. er kominn í salinn. Ég vil að hann heyri upphafsorð mín og þegar ég er búinn að segja það sem mig langar til að hann heyri, þá bregðist hann væntanlega við því í lok ræðu minnar. Virðulegur forseti. Ég vil því doka við meðan hæstv. ráðherra er að gera sig tilbúinn til að koma hingað í sal. (Gripið fram í: Getur þú ekki rætt við samgrh. á meðan?)

Virðulegur forseti. Ég mun beina fyrirspurn til hæstv. samgrh. en það verður síðar í ræðu minni. Ég get ekki áætlað það í tíma, mér sýnist að það verði einhvern tíma fyrir miðnætti.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill geta þess að nú gengur hæstv. fjmrh. í salinn þannig að hv. þm. getur haldið áfram ræðu sinni.)

Ég þakka fyrir. Virðulegi forseti. Ég vil byrja á, með leyfi forseta, að vitna í fræðirit Henrys Hazlitts, Hagfræði í hnotskurn. Ég þakka ungum sjálfstæðismönnum fyrir að senda mér þetta rit sem er mjög hagnýtt þegar maður er að velta fyrir sér ýmsum lögmálum. Mig langar að hefja mál mitt með því að vitna í bls. 18 þar sem segir að draga megi alla hagfræðina saman í eina lexíu, og þá lexínu í eina málsgrein. Ég efast ekki um að hæstv. fjmrh. er sammála mér í því að hér er um ákaflega merkilega setningu að ræða. Hún er svona, með leyfi forseta:

,,Hagfræðin felst í því að líta ekki aðeins á skammtímaáhrif stefnu eða ákvarðana heldur einnig á langtímaáhrifin, og að skoða afleiðingarnar ekki aðeins fyrir einn hóp heldur fyrir alla hópa.``

Þetta tel ég, virðulegur forseti, að eigi að vera markmið allra þeirra sem vinna að fjárlagagerð og eru kjörnir til þess að vinna fyrir fólkið í landinu og mér finnst ástæða til að draga þetta fram vegna þess að mér finnst ekki vera unnið eftir því markmiði sem í hagfræðinni er dregið í eina setningu. Virðulegi forseti. Ég ætla að vitna í þessa ágætu bók, Hagfræði í hnotskurn, á bls. 20, þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Því miður er það oft svo, að vondu hagfræðingunum tekst betur upp að kynna almenningi röng viðhorf sín en hinum góðu tekst að kynna réttu viðhorfin. Menn kvarta oft yfir því, að lýðskrumurunum takist betur að sannfæra fólk um þá hagfræðilegu þvælu sem þeir hafa á stefnuskrá sinni, en hinum heiðarlegu sem reyna að sýna fram á hvað er rangt við hana. En ástæðan fyrir þessu er ósköp einföld. Hún er sú að lýðskrumararnir og vondu hagfræðingarnir eru að kynna hálfsannleik. Þeir fjalla aðeins um bein áhrif á einn hóp, og þeir geta oft haft rétt fyrir sér svo langt sem það nær. Svarið við þessu felst í því að sýna fram á að stefnan hafi einnig í för með sér óæskileg langtímaáhrif eða að sýna fram á að gróðinn fyrir þennan eina hóp stafi einungis af því að gengið sé á hlut einhvers annars. Svarið felst í því að bæta við og leiðrétta hálfsannleikann með hinum helmingnum. En það að taka með í reikninginn öll helstu áhrif ákveðinnar stefnu á alla, krefst oft langrar, flókinnar og leiðinlegrar röksemdafærslu. Flestum finnst erfitt að átta sig á henni og verða fljótt leiðir og hætta að fylgjast með. Vondu hagfræðingarnir færa sér þetta í nyt með því að sannfæra fólk um að það þurfi ekki einu sinni að reyna að fylgjast með röksemdafærslunni eða dæma á grundvelli hennar þar sem hún sé einungis ,,klassísk hagfræði``, ,,markaðshyggja``, ,,köld frjálshyggja`` eða hvaða annað slagorð sem þeim þykir vænlegt til árangurs.``

Virðulegi forseti. Tilvitnun er lokið.

Ég hygg að ég þekki hæstv. fjmrh. það vel að við deilum sameiginlegri skoðun á því atriði sem ég vitnaði til, sem að mínu mati ásamt með nokkrum öðrum gullsetningum, er lykilatriði hagfræðinnar.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. verði hér þangað til ég segist hafa sagt það sem mig langar til að segja við hann þannig að hann geti brugðist við í lok ræðu minnar ef hann telur þess þurfa. Hef ég þá ræðu um fjárlögin 2002.

Virðulegur forseti. Alþingi hlýtur að gera kröfu til þess að stofnanir ríkisvaldsins séu samstilltar í þeim áætlunum og áformum sem eru lögð fyrir þingið. Í haust þegar frv. til fjárlaga var lagt fram var munur á spá Þjóðhagsstofnunar og ,,óskaspá`` sem ég leyfi mér að kalla spá fjmrn. Það er orðið ljóst núna að a.m.k. raunhæfnisspár þess síðarnefnda, þ.e. fjmrn., stenst ekki miðað við öll þau álit og ábendingar sem skoðaðar hafa verið og þær spár sem gerðar hafa verið af hinum ýmsu stofnunum allt frá OECD til almennra banka á Íslandi.

[18:45]

Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram þá sagði ég við 1. umr., og er ástæða til að rifja það upp, að það minnti nokkuð á handmálaðan bíl. Bíllinn getur litið nokkuð vel út í fjarlægð en þegar nær kemur má greina misfellur og niðurstaðan verður að umræddur bíll sé fjarskafallegur. Þannig, virðulegur forseti, vil ég líta á þetta fjárlagafrv. sem lagt var fram á fyrsta degi þingsins, að það líti nokkuð vel út en þegar grannt er skoðað, eins og raunin er orðin á, standist frv. ekki. Það stenst ekki. Það sést best á því að hæstv. ríkisstjórn er að boða niðurskurð sem hefði átt að vera fyrirsjáanlegur strax þegar frv. lagt fram þó svo að unnið hafi verið við frv., virðulegur forseti, frá því á vordögum.

Ég þarf ekki annað en að minna á að minni hluti fjárln. hefur frá 1995, mjög greinilega í hverju einasta sameiginlegu minnihlutaáliti og síðan í áliti 1. minni hluta frá síðustu kosningum, greinilega bent á í hvað stefndi. Varað hefur verið við viðskiptahallanum. Varað hefur verið við auknum lántökum og varað hefur verið við því sem mundi óhjákvæmilega koma með þessum mikla viðskiptahalla sem við höfum búið við. Viðskiptahalli á fjórum árum er 200 milljarðar. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að 20 milljarða vantar til að standa undir þessum ósköpum.

Menn geta þá bara reynt að velta því fyrir sér hvert gatið í íslensku fjárlögunum, sem er upp á 230 milljarða, verði. Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að gerast spámaður. Ég er bara að velta upp stöðunni sem blasir við.

Upphafsorð fjárlagafrv., með leyfi forseta, eru svona:

,,Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 endurspeglar að mörgu leyti breytta stöðu efnahagsmála. Eftir kröftuga efnahagsuppsveiflu síðustu ár hefur hagkerfið færst nær jafnvægi á nýjan leik.``

Virðulegur forseti. Ég er að vitna til frv. til fjárlaga sem lagt var fram 1. október. Þar segir að hagkerfið sé að færast til jafnvægis á nýjan leik. Þetta er nú m.a. ástæðan fyrir því að ég bið hæstv. fjmrh. að hlýða á orð mín. Á tíu mánaða tímabili höfum við búið við gengisfellingu sem er yfir 20%, nánar tiltekið 23%. Er það að hagkerfið sé að færast til jafnvægis? Er það að hagkerfið sé að færast til jafnvægis að dollarinn sem kostaði 76 kr. fyrir 13 mánuðum kostar í dag 110 kr. eða nálægt því? Erum við að færast nær jafnvægi? Er að furða þó að spurt sé?

Er að furða þó að spurt sé þegar allir samningar sem við höfum gert erlendis í dollurum, hækka um sem nemur 25%? Er furða þó að spurt sé: Erum við að færast nær jafnvægi?

Ég hef á undanförnum mánuðum eða frá því að ríkisreikningurinn fyrir árið 2000 kom út núna í júlí, bent á í hvað stefndi, m.a. í viðtali við Stöð 2. Ég hef einnig reynt að benda á og draga fram í ljósið og beint kastljósi að gífurlegri skuldasöfnun einstaklinga, ríkisins og ríkisfyrirtækja. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég tel að allt of margir láti sér fátt um finnast.

Einstaklingar og fyrirtæki, samkvæmt fyrirspurn sem ég lagði hér fram fyrir skömmu síðan, hafa tekið lán erlendis sem nema 661,7 milljörðum. Geta menn gert sér grein fyrir því hvað þessi lán hafa hækkað bara frá 15. október? Þessi lán hafa hækkað sem nemur 26 milljörðum í íslenskum krónum. Þetta eru skuggalegar staðreyndir sem ekki verður móti mælt. Þessar lántölur eru samkvæmt svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn sem lögð var hér fram einhvern tíma að kvöldi dags.

Skuldir sjávarútvegsins eru líklega kringum 200 milljarðar. Ekki hefur tekist að fá upplýst hversu miklar skuldir sjávarútvegsins eru, jafnvel þó að hér hafi legið frammi fyrirspurn á annan mánuð til hæstv. sjútvrh. þar sem spurt er einfaldlega: Hverjar eru skuldir sjávarútvegsins?

Virðulegur forseti. Ég hlýt um leið og ég segi þetta að inna eftir því hversu langan tíma ráðuneytin hafa til að svara fyrirspurnum sem eru lagðar hér fram og óskað er skriflegs svars.

Ég tel að sú mikla skuldasöfnun sem ég er hér að ræða sé grunnurinn að því gengishrapi og verðbólgu sem við búum við. Þetta er að mínu mati og margra annarra grunnurinn að því gengishrapi og verðbólgu sem við búum við. Skuldir ríkisins, sem ég veit að hæstv. fjmrh. er ekki sáttur við, eru metnar 413 milljarðar. Það er engu að síður staðreynd að í lok árs 2000 eru skuldir íslenska ríkisins 413 milljarðar og þær jukust um 30 milljarða eða 29,9 milljarða á árinu. Er þetta jafnvægi, herra forseti? Er þetta jafnvægi sem efnahagskerfið er að leita eftir?

Hvar eru merki um jafnvægi? Finnast þau merki í nauðungaruppboðsauglýsingum upp á margar síður dag eftir dag, svo ég vitni bara, virðulegur forseti, til 8., 9. og 10. nóvembers sl. þegar þrjár heilsíðuauglýsingar birtust um nauðungaruppboð? Er það merki um jafnvægi? Er það merki um jafnvægi, virðulegur forseti, að það eru að meðaltali tvö fyrirtæki sem fara á hausinn á hverjum degi á mánaðartímabili, miðað við septembermánuð? Er það að leita jafnvægis í efnahagskerfinu?

Er það jafnvægið í efnahagskerfinu þegar um 50 fyrirtæki eru stofnuð með nýrri kennitölu? Samkvæmt upplýsingum er verið að stofna 50 ný fyrirtæki og leikur grunur á að svokallaður kennitöluleikur, sem ég hef áður nefnt í þessum sölum, sé í gangi, þ.e. að verið sé að hlaupa frá einu fyrirtæki á hnjánum og stofna annað ofan í sárin. Skyldi það bera vott um jafnvægi?

Svo er verið að ræða um árangurslaust fjárnám. Hvað er árangurslaust fjárnám? Ef virðulegur forseti hefur tekið eftir því þá er margsinnis verið að kynna árangurslaust fjárnám. Hvað þýðir það? Það þýðir að einstaklingar hafa farið á hausinn og eignirnar eru ekki metnar á 150 þús. kr., þ.e. að ekki sé hægt að reikna með að þeir sem gera kröfu nái 150 þús. kr. af viðkomandi aðilum. Þá er um að ræða árangurslaust fjárnám. Árangurslaust fjárnám á Íslandi er í þúsundavís í dag. Það er í þúsundavís og það er skelfilegt.

Virðulegur forseti. Ég get sleppt hæstv. fjmrh. við að hlusta á tölu mína því að ég hef tínt upp þau lykilatriði sem ég tel að ráði þeirri stöðu sem við erum nú í. En ég ítreka að í fimm nefndarálitum, litið til baka, er hægt að sjá viðvörunina frá minni hlutanum, fimm ár aftur í tímann, um það sem er að gerast núna nákvæmlega.

Á hverju skyldi þetta álit nú vera byggt? Ætli það sé frá þeim sem hér stendur? Ætli það sé frá þessum skörpu náungum sem hafa setið í minni hluta fjárln.? Nei, það er ekki þaðan. Það er nefnilega fengið frá þeim stofnunum sem hæstv. ríkisstjórn ber að leita til, Seðlabankanum, OECD og Þjóðhagsstofnun. Tilvitnanir okkar í minni hlutanum eru gegnum allan tímann beint í þessa sömu aðila.

Það er virkilega ástæða til að rifja þetta upp vegna þess að menn hafa sagt hér æ ofan í æ, skipstjórinn á skútunni, hæstv. forsrh., hefur sagt að hér sé allt í lagi. Fólk þarf bara að endurnýja bílana sína. Fólk þarf bara að endurnýja tækin sín. Það er ósköp eðlilegt þegar sólin er hátt á lofti að þá streymi fjármunirnir til fjárfestinga, þessara fjárfestinga sem ég er að geta um.

Þeir sem, eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, fylgjast með vita að ástandið hefur versnað. Það þarf ekkert annað en að líta á síður dagblaðanna, eins og ég sagði áðan. En þeim sem ekki virða þessar viðvaranir sem ég hef haft uppi varðandi skuldasöfnun og þær nauðungaruppboðsauglýsingar og annað sem uppi hefur verið, má líkja við strúta sem stinga hausnum í sandinn.

Virðulegur forseti. Ég nefni hæstv. forsrh. og hv. þm. Kristján Pálsson sem hafa rætt um þessi mál eins og þeir búi í annarri veröld en almenningur í þessu landi. Því nefni ég þessa einstaklinga, virðulegur forseti, að í umræðu um frv. til fjáraukalaga fyrir nokkrum dögum síðan kom hv. þm. Kristján Pálsson og sagði: ,,Hér er ekkert að. Hér er nóg vinna. Allir eru í vinnu og hvað er þá að?``

Það sem er að er það sem er að byggjast upp í kerfinu. Ég sagði: Ég vara við því ástandi sem verður í febrúar. Ég vildi óska þess að það sem ég er að segja hér stæðist ekki. En ég hef líka sagt hér áður, herra forseti, úr þessum stól að ég óskaði þess að þau nefndarálit sem við höfum flutt fyrir hönd minni hluta fjárln., stæðust ekki. Komið er í ljós, virðulegur forseti, að hvert einasta orð stenst. Með tilvitnun í hverja, virðulegur forseti? Þá merku stofnun OECD, þá merku stofnun Þjóðhagsstofnun og þá merku stofnun Seðlabanka Íslands.

Ég bendi hv. þingmönnum á að rétt er að líta í þessi nál. því þá geta menn séð að hvert einasta orð sem ég hef sagt stendur þar.

Ég vitna enn í fjárlagafrv., með leyfi forseta. Þar stendur m.a.:

,,Verulega hefur dregið úr innlendri eftirspurn og viðskiptahalli minnkar ... á næstunni.``

Ég gerði þetta líka, virðulegur forseti, að umtalsefni við 1. umr. fjárlaga. Vonandi standast þessar fullyrðingar, eða ætti ég að segja væntingar. Vissulega er rétt að viðskiptahallinn í lok september var ekki nema 32 milljarðar ofan á þann viðskiptahalla sem var uppsafnaður áður --- það er alveg rétt. Það hefur hægt verulega á --- á móti 47 milljörðum á sama tíma í fyrra. Það hefur hægt verulega á. Það er auðvitað gott.

[19:00]

En hver skyldi ástæðan vera fyrir því að fólk sem hefur leiðst út í að kaupa bíla með einhvers konar samningum þar sem það borgar allt að 200--500 þús. kr. til að losna við bíla sem eru með áhvílandi lánum upp á 2--4 millj. Hvað ætli sé á ferðinni þar? Hvað ætli sé að gerast?

Ég hef ósköp lítið heyrt um þessar væntingar frá því að fjárlagafrv. var lagt fram. Þá var verið að spá 4% verðbólgu. Verðbólgan er núna á 9%, milli 8--9%. Á tveimur mánuðum hefur verðbólgan flogið upp um yfir 2%. Minnugir þess að 5,9% verðbólga er viðmiðun í almennum kjarasamningum og að ef verðbólgan fer yfir 5,9%, þá hafi einstök verkalýðsfélög rétt til að segja upp kjarasamningunum. Það eru engin ráð til þess að ná verðbólgunni niður fram til febrúar nk., úr því að vera milli 8--9% niður í 5,9%. Það er alveg sama hvaða hagfræði er beitt. Ég er búinn að lesa það mikið í hagfræðibók sem ég fékk að gjöf frá ungum sjálfstæðismönnum. Ég leyfi mér að vitna í það sem ég tel að séu lykilatriði hagfræði.

Virðulegur forseti. Sú þróun sem er í gangi leiðir óhjákvæmilega til minni tekna hjá ríkissjóði, segir í þessu frv. En tekjur af sköttum, ef við rifjum það upp, hafa snarhækkað, a.m.k. það sem af er. Ég ætla ekkert að spá frekar um framhaldið en ég hef gert hér um það hvað fram undan er. En ég er þess fullviss að staða ríkissjóðs mun enn versna. Það sannast á því að hæstv. ríkisstjórn er með á prjónunum, eins og hér stendur í blaði allra landsmanna, niðurskurð upp á 3--3,5 milljarða. Þetta á bara að gerast með einu pennastriki eins og frægt er orðið. Hvað er það sem menn eru að velta fyrir sér að draga saman? Jú. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,... hugsanlega verður gildistöku laga um fæðingarorlof frestað að einhverju leyti, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Einnig hefur komið til tals að fresta að hluta til eða öllu leyti gerð hugbúnaðar fyrir ríkisbókhald og Landsskrá fasteigna ...`` Hvernig stendur það mál, virðulegi forseti? Það stendur þannig að búið er að gera samning um þessi verk, það er búið að ráða um 30 manns í vinnu til að vinna þessi verk. Hvað kostar að rifta þessum samningum?

Síðan er bent á að til greina komi að skera niður til vegamála. Hvað er búið að skera niður til vegamála á síðasta ári? 1.400 millj., ekki miðað við þetta fjárlagafrv. heldur miðað við síðasta fjárlagafrv. Þá er búið að skera niður sem nemur 1.400 millj., 1,4 milljörðum.

Í sama blaði, blaði allra landsmanna, er gerð grein fyrir útgjaldatillögum eins og hér hafa verið ræddar í dag og þær kynntar lið fyrir lið með löngum skýringum, útgjaldahækkanir upp á 2,2 milljarða. Halda menn að það séu eðlileg vinnubrögð, á sama tíma og boðuð er útgjaldaaukning upp á 2,2 milljarða, að menn flaggi samtímis einhverjum hugsanlegum niðurskurði upp á 3--4 milljarða? Hið eina sem hefði verið eðlilegt í þeirri stöðu sem upp var komin hefði verið að ríkisstjórnin áttaði sig á að rétt væri að fresta 2. umr. fjárlaga. Það var það eina sem rétt var.

Virðulegi forseti. Ég hef setið í fjárln. síðan 1995 og hef smám saman verið að læra á þann frumskóg og alls konar hliðarvegi í þeirri vinnu. Hins vegar mun maður þó ekki skilja flækjuna, alla taugaflækjuna, nema hafa setið í hópi þeirra sem skipar meiri hluta. Því er ekki hægt að neita að minni hluti fjárln. fær í tilkynningaformi það sem meiri hlutinn ákveður og meiri hlutinn fær í tilkynningaformi það sem ríkisstjórnin ákveður. Svo á þessi nefnd að heita sjálfstæð nefnd á vegum Alþingis.

Í fjárlagafrv. var áætlað að afgangur á ríkissjóði fyrir árið 2002 yrði 18,6 milljarðar. Þetta var áætlunin, um það bil 2,5% af landsframleiðslu. Hver er stefnan nú? Það hefur komið fram í mörgum ræðum í dag. Stefnan er nú að það skuli verða afgangur upp á 3--3,5 milljarða. Það er dálítill munur, frá 3,5 milljörðum upp í 18,6 milljarða. Á hve löngum tíma, virðulegi forseti? Á röskum mánuði. Á einum og hálfum mánuði hefur bókstaflega allt hrunið í þessu fjarskafallega frumvarpi sem ég líkti áðan við handmálaðan bíl.

Lánsfjárafgangur er áætlaður, hversu hár? Hversu há átti sú tala að vera? 41 milljarður kr., lánsfjárafgangurinn. En til þess að það náist þarf að koma til 21 milljarður kr. vegna sölu eigna frá fyrra ári og 20 milljarðar vegna eignasölu ársins. Ég gat ekki annað en fagnað því, virðulegi forseti, að áætlað var að greiða með þessum fjármunum 25 milljarða af skuldum og þar af áttu 9 milljarðar að fara í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Síðan átti að bæta stöðu við Seðlabankann upp á 7,5 milljarða. Þetta voru áformin í haust.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég hef enga trú á að þessi áform eða væntingar standist. En dæmið var svona í mjög einfaldri mynd. Ég segi, eins og ég sagi í upphafi ræðu minnar, að það er ekki nóg að þetta líti vel út í fjarlægð. Það er ekki allt gull sem glóir ef hlutirnir eru skoðaðir í samhengi.

Sá mismunur sem var á þjóðhagsspá og óskaspá fjmrn. olli mér áhyggjum í haust. En sú skekkja, sá mismunur sem þá var, var lítill mismunur, þar tek ég undir orð hæstv. fjmrh. Þar gæti skeikað 1%. Nú er bara mikið verra dæmi komið upp. Hvorug spáin stenst og það er ljóst. Ef ytri skekkjumörk eru notuð þá er staðan verulega slæm miðað við þær spár sem nú liggja fyrir. Ljóst er að tekjur af sölu eigna er það eina sem getur bjargað. Ef ekki tekst að selja þessar eignir þá er ekki nóg með að þessu fjárlagafrv. verði að einhverju leyti breytt núna. Það þarf að taka verulega á á næstu mánuðum til viðbótar ef ekki tekst að semja við kjölfestufjárfesta, t.d. varðandi sölu á Símanum. Menn hafa ekki rætt þetta mikið í dag. En þetta er staðan. Ef það verður ekki orðið klárt og ljóst á næstu vikum eða næstu dögum, þá horfir illa fyrir þessu fjárlagafrv.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir það áður að skuldir ríkisins eru enn að aukast. Þær eru 413 milljarðar í árslok 2000 samkvæmt ríkisreikningi. Þær höfðu aukist um 30 milljarða á því herrans ári. Ég vísa í endurskoðaðan ríkisreikning fyrir árið 2000, þetta plagg frá Ríkisendurskoðun. Þar eru alvarlegar viðvaranir á ferðinni. Það er ekki að búast við að eitthvað hafi batnað ef ljóst er að viðskiptahallinn er yfir 200 milljarðar á þremur og hálfu ári. Ég er búinn að fara yfir það áður hversu mikið hallinn hefur minnkað en það stefnir samt, miðað við lok september, í að viðskiptahallinn hafi verið þá um 32 milljarðar. Mér er ekki kunnugt um að það hafi gerst nein galdraverk þannig að þessi 32 milljarða halli hafi minnkað.

Seðlabankinn greip inn í gang efnahagslífsins. Með hverju? Seðlabankinn greip inn í með kaupum á krónum til þess að koma í veg fyrir gengislækkun. Margir milljarðar voru notaðir til þeirra kaupa. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég efast nú um þær gjörðir bankans. Ég tel að þeir hafi ætlað að stýra því sem ekki var hægt að koma í veg fyrir. Ég tel að þeir hafi gripið of fljótt inn í og að á þeim bæ þurfi að skoða mjög vel til hvaða efnahagsaðgerða á að grípa við þær aðstæður sem nú ríkja.

Lögum um Seðlabankann var breytt. Það var gert og staðfest með lögum í maí sl. Meiningin var sú að það mundi tryggja stöðugt verðlag. Þær væntingar hafa ekki gengið eftir en þó er rétt að geta þess að Seðlabankinn hefur ekki enn þá tilgreint hvað er átt við með orðalaginu ,,stöðugu verðlagi``. Ég krefst þess, virðulegur forseti, að Seðlabankanum verði gert að skýra út hvað átt var við, þegar lögin voru sett í maí, þegar talað var um stöðugt verðlag. Verðbólgan er upp á 8--9%, tvöfalt hærri en í nokkru öðru nágrannalandi. Seðlabankinn hlýtur að hafa þá skyldu að útskýra umrætt markmið. Stýrivextir á Íslandi eru tvöfalt og þrefalt hærri en í viðmiðunarlöndunum, t.d. í Evrópu. Ég nefni Noreg. Stýrivextir á Íslandi eru fjórfalt hærri en í Bandaríkjunum.

[19:15]

Virðulegur forseti. Þetta segir allt sem segja þarf um þennan vanda. Hann er ekki meðfæddur, hann er áskapaður að mestu leyti, virðulegur forseti. Þetta er áskapaður vandi hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar með aðgerðaleysi, stefnuleysi og sofandahætti. Þess vegna erum við komin í þá stöðu sem við erum í. Ég tel sennilegt að inngrip með lækkun vaxta hefði getað orðið krónunni til styrkingar. Það vald er í höndum Seðlabankans og þegar Seðlabankanum var afhent þetta vald taldi ég að um rétta gjörð væri að ræða. En ef tregða bankans til sveigjanleika eftir aðstæðum verður of mikil kemur upp í hugann hjá undirrituðum efasemdarhugsun varðandi þetta efni.

Mín skoðun er sú, virðulegur forseti, að núna hefði þurft að vera búið að lækka vexti um 3% í stað 0,9%. Virðulegur forseti. Ég hef nokkuð fyrir mér í þessu efni en ég sé ekki ástæðu til að rekja miklu meira af hagfræðikenningum frá öðrum svo ég læt nægja að setja þetta svona fram. Ég get samt ekki annað, virðulegur forseti, en borið nokkra virðingu fyrir þeim sem standa fast í fætur og eru trúir sannfæringu sinni, eins og Seðlabankinn virðist vera, gegn þeim þrýstingi sem hann býr við. Ég get ekki annað en borið virðingu fyrir mönnum sem eru staðfastir.

Aftur að því frv. sem ég er að ræða, fjárlagafrv. Afgangur ríkissjóðs var fyrst og fremst áætlaður af sölu eigna ríkisins. Ég hef miklar áhyggjur af því að samdráttur verði of harkalegur og ég hef líka áhyggjur af því að söluáform gangi ekki eftir. Síðan velti ég fyrir mér við þessar aðstæður hvort arðkröfur kjölfestukaupenda geti leitt til samdráttar sem mest muni finnast fyrir í dreifðari byggðum landsins. Hvað ætli sé að gerast, virðulegur forseti, þegar verið er að leggja niður hvert Landsbankaútibúið á fætur öðru og þegar verið er að loka hverri póststofunni á fætur annarri úti um allt land? Aðallega er þó verið að gera það í hinum dreifðari byggðum. Og hvaða áhrif hafa þessar gjörðir?

Það er dýrt í litlu þorpi þegar tveir missa starf, það er mikið mál. Þetta er að gerast víðs vegar um landið og það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af framgangi þessarar sjálfstæðu einingar sem er póststofnunin eða Íslandspóstur og síðan Landsbanki Íslands. Það eru þeir aðilar sem ég er að ræða um, virðulegur forseti.

Sett voru upp, virðulegur forseti, ýmis viðvörunarljós í umræðum um tvenn síðustu fjárlög af hálfu okkar jafnaðarmanna. Það var ekki hlustað á þau orð, allra síst af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Staðreyndin er þó sú að ýmsir einkaaðilar voru betur á tánum vegna þeirra viðvarana sem komu fram í minnihlutaáliti fjárln., og það er vel. Einkaaðilarnir hlustuðu en hæstv. ríkisstjórn skellti skollaeyrum við. Það var ekki hægt að vekja hana af þyrnirósarsvefninum. Þó ættu allir menn, virðulegur forseti, að muna að áætlanir fyrir síðasta ár og það ár sem nú er að líða hafa brugðist. Ríkisreikningur fyrir sl. ár segir sína sögu um raunniðurstöðu fjárlaga.

Herra forseti. Við þessa umræðu er ástæða til að nefna að þær fjárlagatillögur sem hæstv. ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi eru niðurstöður ráðuneytanna. Minni hluti fjárln. fær ekki að sjá tillögur forstöðumanna hinna ýmsu stofnana nema með því að fara krókaleiðir. Ef rétt er, sem heyrst hefur, að forstöðumönnum stofnana sé nánast bannað að fara beint til fjárln. til að kynna niðurstöður sínar og tillögur sem þeir leggja fram er ljóst að hér er um að ræða óþolandi gjörð. Líklega er rétt að kryfja hæstv. ráðherra um hvort þeir séu virkilega að láta þau boð út ganga að forstöðumenn stofnana eigi ekki að leita eftir því að fá að skýra fjárln. beint frá tillögum sínum varðandi fjárlagagerð.

Virðulegur forseti. Ég ætla að stoppa við í þessari ræðu vegna þess að hæstv. heilbrrh. er í salnum. Fyrir fjárln. hafa verið lögð gögn úr þeim málaflokki eins og reyndar undanfarin ár. Landspítali -- háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og St. Fransiskusspítalinn í Stykkishólmi og nokkrir aðrir aðilar hafa komið og lagt gögn sín fyrir. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hann hafi gert sér ljósa þá mynd sem við blasir ef við eigum að taka mark á því sem forustumenn þessara stofnana leggja fram. Ef svo er --- að taka eigi mark á því miðað við fjárlög sem fyrir liggja --- sýnist mér að það slagi hátt í milljarðinn sem vantar til að mæta þeim kröfum sem settar eru fram. Þó er ég ekki að tala um ýtrustu kröfur. Stofnanirnar telja að til tækjakaupa einna þurfi 200 millj. Hver er áætlunin, hvað er lagt til? Lagt er til að veita 20 millj. kr. til tækjakaupa, 10% af því sem þörfin er að mati forstöðumanna stofnana. Ég ítreka þá spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort hann hafi gert sér í hugarlund í hvað stefni. Það væri ánægjulegt, þó að ekki yrði fyrr en síðar, að fá svar við þeirri spurningu. Ég sé ekki ástæðu til að leggja miklu fleiri spurningar fyrir hæstv. heilbrrh. Þetta er lykilatriðið um hvernig til tekst með rekstur þeirra stofnana sem eru lykilstofnanir landsins í heilbrigðismálum.

Þetta frv., virðulegur forseti, sem við erum að ræða segir ríkissjóð vel undirbúinn til að takast á við þann vanda sem nú blasir við. En aðstæðurnar eru breyttar frá því að þetta frv. var lagt fram. Nú blasir við meiri vandi en menn gerðu ráð fyrir við framlagningu frv. Það hlýtur að vera hverjum einasta manni ljóst að þeir einstaklingar sem að einhverju leyti standa höllum fæti eru vanbúnir þeim áföllum sem virðast blasa við. Ríkið er vanbúið því áfalli sem virðist blasa við. Ríkið er að tala um að það þurfi að skila afgangi upp á 3--3,5 milljarða. Mér segir svo hugur um að sá afgangur sé allt of lítill til að mæta þeim erfiðleikum sem við blasa. Ég get ekki, herra forseti, hér á þessari stundu bent á ráð en það eru ýmsir póstar --- ég tek undir með virðulegum varaformanni fjárln. þegar hann segir að það er víða fitulag sem má skera af. Það er rétt.

Það fyrsta sem mér kemur í hug, virðulegur forseti, er að sjálfsögðu allur sá kostnaður sem felst, samkvæmt ábendingum Ríkisendurskoðunar, í hinum gífurlegu ferðalögum á vegum hins opinbera sem aukast um 30% á ári, 30% aukning í kostnaði vegna ferðalaga. Virðulegur forseti. Komi ekki tillögur --- þegar ríkisstjórnin vaknar kannski eftir tvo, þrjá daga --- í þá veru að skera þar niður veit ég ekki hvar menn eru staddir. Á fjölmörgum stöðum má skera niður án þess að nokkuð sjái á. Ég held að ýmsar upphæðir ætlaðar málefnum sem eru kannski ekki slæm málefni væru samt betur komnar hjá þeim sem er gert að lifa af 73 þús. kr. á mánuði. Þar á ég við öryrkjann, einbúann sem hefur ekki aðrar tekjur en þessar rúmlega 73 þús. kr., og þar ætti að bæta um.

Meðal okkar jafnaðarmanna eru ríkjandi þau sjónarmið og viðmið að við viljum jafna leikinn. Við viljum gera öllum jafnt undir höfði hvað varðar aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og atvinnuþátttöku. Þess vegna höfum við sagt: Við höfnum skólagjöldum. Þess vegna höfnum við, virðulegur forseti, sköttum á bætur. Þess vegna höfnum við auknum álögum á landsbyggð í formi flutningskostnaðar. Þess vegna teljum við ástæðu til að skoða mismunun með skattlagningu og jafna aðstöðumun. Ég vitna til aðgerða sem bræður okkar Norðmenn hafa uppi varðandi dreifbýlið. Ég tel að við getum fundið þar hugmyndir sem við getum nýtt okkur til að jafna þann aðstöðumun sem er á milli dreifbýlis og þéttbýlis á Íslandi.

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að lengja þessa umræðu og það verulega. Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að á einhvern hátt sé athygli fjölmiðla beint að þeirri stöðu sem við raunverulega erum í. Og hver er sú staða, virðulegur forseti? Hún er sú að ríkissjóður skuldar 413 milljarða, að einstaklingar og fyrirtæki hafa tekið lán erlendis sem nemur 661,7 milljörðum, að skuldir útgerðarinnar eru 200 milljarðar. Það er ástæða, virðulegur forseti, til að lengja umræðuna bara til að vekja athygli á þeirri stöðu sem menn hafa helst ekki viljað fá upp á borðið.

[19:30]

Verulegur áherslumunur er varðandi ráðstöfun fjármuna, a.m.k. á milli ríkjandi stjórnarflokka og þess sem hugmyndir okkar jafnaðarmanna ganga út á. Þess vegna, virðulegur forseti, ætla ég að halda áfram að fara yfir það sem verður að gera og hefði átt að vera byrjað á fyrir þremur árum í stað þess að láta fljóta að feigðarósi eða, eins og sagt hefur verið, að kapteinninn á skútunni liggi bara í ljósaböðum á meðan skútuna ber upp á sker.

Virðulegur forseti. Til að tryggja efnahagslegan stöðugleika verður að vera viðvarandi hagvöxtur og jafnvægi milli útflutnings og innflutnings. Þetta eru grundvallaratriðin.

Hvað höfum við búið við á undanförnum árum? Við höfum búið við það að viðskiptahallinn hefur verið gífurlegur, í kringum 200 milljónir á þremur og hálfu ári. Þetta grundvallarlögmál sem ég var hér að lesa upp og fara með er brotið. Það er nauðsyn að ná stöðugleika á vinnumarkaði hvað varðar átök um laun. Samkvæmt kenningunni þarf framleiðni atvinnulífsins að skapa svigrúm til launabreytinga. Ríkisstjórn verður að reka trúverðuga efnahagsstefnu með skýrt markmið sem tryggir stöðugleika og lága verðbólgu, jöfnun lífskjara og tekjuskiptingar. Virðulegur forseti, það sem ég er að fara með hér eru lykilatriðin í hagfræði og hagstjórn eins samfélags.

Eins og efnahagsstefnan hefur verið rekin hefur ekki verið tekið mið af heildarhagsmunum, en sáttin, ef svo má segja, er rofin og það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því.

Í þeim átökum sem hafa orðið um það sem er til skiptanna hafa sérhagsmunir í vaxandi mæli orðið ofan á. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er ekki mótuð miðað við þarfir atvinnulífsins og forsendur kjarasamninga. Það sést best á því að verðbólgan og stöðugleikinn hefur ekki verið meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi má segja að jöfnun lífskjara sé ekki viðfangsefni boðaðra skattbreytinga. Ég segi, virðulegur forseti, að þær skattbreytingar sem nú eru boðaðar eru ekki jöfnun lífskjara.

Það sem er því miður að gerast er að krónan er afgangsstærð, menn sjá ekki fyrir í dag hvar sú þróun endar sem hér hefur verið stofnað til. Vissulega verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð ríkisstjórnar verða eftir þessa umræðu þegar kemur til sjálfrar lagasetningarinnar um fjárlög. Sá efnahagslegi samdráttur sem er að gerast núna fyrir augum okkar má heldur ekki verða til þess að menn rjúki í handahófskenndar aðgerðir. Svo mikið hef ég lært, sitjandi í fjárln. á liðnum árum, að handahófskenndar aðgerðir eru ekki til góðs sem sjá má á því hvernig við erum stödd í dag.

Virðulegur forseti. Ef hæstv. ríkisstjórn vill ná árangri ber henni, að mínu mati, að ná saman breiðfylkingu allra stjórnmálaafla, vinnuveitenda og fulltrúa launþega til samráðs. Ef ekki, þá munu menn missa heildaryfirsýn og myndast munu alls konar flóknar gildrur sem mjög erfitt verður að greina. Allar skammtímaaðgerðir munu leiða til átaka milli aðila og þá verður enginn til að sinna langtímauppbyggingu kerfis eða aðlögun að nýjum viðhorfum og aðstæðum.

Það sem er þungbærast eftir þá góðu möguleika sem við áttum til að viðhalda hógværum stöðugleika er að ríkisfjármál eru í ólestri sem sjá má á því, virðulegur forseti, að útþensla ríkissjóðs hefur vaxið á skömmum tíma úr 20% af vergri landsframleiðslu í 25%. Þetta, virðulegur forseti, er nákvæmlega dæmið sem bar að varast.

Fyrir liggur að skattalækkanir á meðal- og hátekjur 1998 og 1999 voru ekki réttmætar því að það voru í rauninni kjarasamningarnir sem tryggðu aukinn kaupmátt en ekki skattalækkanirnar.

Ég minni einnig á að Seðlabankinn hækkaði raungengi og ætlaði þar með að stöðva verðbólgu. Til hvers leiddi það? Það leiddi til aukins viðskiptahalla og versnandi samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Menn reyndu að mynda nýjan grundvöll með almennum kjarasamningum á síðasta ári. En ríkisstjórnin breytti ekki stefnu sinni. Seðlabankinn var einn að basla við aðgerðir. Gengi krónunnar hefur fallið í skjóli gjaldeyris og fjármálamarkaða. Viðskiptahallinn og útgjaldaþenslan hefur fætt verðbólguna eins og ljóst er. Þetta er, virðulegur forseti, það sem hefur verið að gerast.

Ég ætla ekki að svo komnu máli að ræða um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ég tel að menn séu að reyna að færa sig að einhverju nýju. En ég hef áhyggjur af hliðaraðgerðum sem fylgja, og ég tala nú ekki um ef menn ætla að flytja skattana frá fjármagni yfir á laun og atvinnu. Virðulegur forseti. Skyldi vera meiningin að flytja skattana frá fjármagni yfir á laun og atvinnuna?

Virðulegur forseti. Ég vil beina athyglinni að ábendingum Ríkisendurskoðunar um það sem ábótavant er í meðferð ríkisfjármála. Ég styðst við framsetningu skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta. Og þá er komið að því, virðulegur forseti, að ég óska eftir að fá hæstv. forsrh. hér í sal eða að ég geti verið öruggur um að hann heyri það sem ég beini til hans. (Gripið fram í: Er ekki nóg að hafa mig?)

Ég treysti því, virðulegur forseti, að ég hafi verið það skýrmæltur að það sem ég fór fram á hafi virðulegur forseti heyrt og ég bíð þá eftir þeim viðbrögðum sem ég óskaði eftir.

(Forseti (HBl): Forsrh. er ekki staddur í þinghúsinu.)

Virðulegur forseti. Ég óskaði eftir því, eins og ég gat um hér í dag, að hæstv. ráðherrar yrðu tiltækir við umræðuna. Það var móðgun við talsmenn minni hlutans, og reyndar meiri hlutans, í fjárln. að hæstv. ráðherrar skyldu flestir fara úr húsi. Ég geri því þá kröfu, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. verði sóttur og ég skal standa hér og bíða þangað til hæstv. forsrh. þóknast að koma hér í sal.

(Forseti (HBl): Þessi umræða hefur staðið alllengi og menn hafa gert vel grein fyrir máli sínu. Forseti telur ástæðulaust að sækja forsrh. Ég óska eftir því við hv. þm. að hann haldi áfram ræðu sinni.)

Virðulegur forseti. Það er komið að þeim stað í ræðu minni þar sem ég óska eftir því að hæstv. forsrh. verði viðstaddur og hann geti hlýtt á það sem ég hef við hann að segja. Síðan getur hann fengið að fara mín vegna. En ég óska eftir því að hann verði sóttur. Ég er kominn á þann stað í ræðu minni þar sem ég ætla að fara yfir meginvandann sem ríkir í efnahagsstjórn á Íslandi. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. verði sóttur og á meðan er ég tilbúinn að bíða, og tel ekki eftir mér að bíða með hæstv. forseta.

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann muni senn ljúka ræðu sinni.)

Virðulegur forseti. Það er langt í land.

(Forseti (HBl): Gert verður matarhlé í hálftíma og fundinum frestað.)