Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:03:58 (2012)

2001-11-27 21:03:58# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þau atriði sem hv. þm. vakti máls á í fyrirspurn til mín hafa verið hér til umræðu áður. Það er rétt hjá hv. þm. að nokkrir skólar eru til sérstakrar skoðunar. Ég hef átt viðræður við forustumenn bæði skólans á Akranesi og eins skólans í Kópavogi og rætt við stjórnendur skólans í Breiðholti, alla þessa skólastjórnendur hef ég haft tækifæri til að ræða við á undanförnum dögum. Það er ljóst að við erum að nálgast þann ramma í skólastarfinu sem við teljum að sé viðunandi til þess að unnt sé að hefja þær gagnaðgerðir sem eru nauðsynlegar til þess að vinna á þessum halla.

Hins vegar er það svo varðandi Menntaskólann í Kópavogi, sérstaklega vegna þess hve hann er stór skóli og vel tækjum búinn, að ekki er við því að búast að mínu mati að nokkrar almennar reiknireglur nái utan um alla þá starfsemi þannig að við þurfum að líta á hann sérstökum augum. En á Akranesi og í hinum skólunum miðað við þau áform sem við höfum við endurskoðun á reiknilíkaninu þá sýnist mér að utan um skólareksturinn náist með viðunandi hætti. Ég met það svo a.m.k.

Varðandi það sem hv. þm. vék að þá er ekki aðeins á Akranesi, svo er í fleiri skólum, í Reykjavík líka, að menn þurfa að stilla saman kennslu í frönsku eða öðrum tungumálum og safna nemendum saman í stærri hópa þannig að það er ekki bundið við einstaka landshluta. Ég sé það fyrir mér að við séum að ná utan um þetta en hve langan tíma tekur síðan að vinna á hallanum er annað mál. En við sjáum það líka að það er oft hægt á tiltölulega skömmum tíma að snúa vörn í sókn í þessum skólum. Við getum tekið Menntaskólann í Hamrahlíð sem dæmi um það hve vel hefur verið staðið að því að umbreyta fjárhagsstöðu hans. Hann sætir nú, ef það má orða það svo, ámæli frá Ríkisendurskoðun fyrir að vera með of mikinn afgang.