Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:07:19 (2014)

2001-11-27 21:07:19# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta að í sjálfu sér erum við ekki að ná sáttum um reiknilíkanið sem slíkt heldur er mjög mikilvægt að samkomulag náist á milli ráðuneytisins og viðkomandi skóla um þann ramma sem við erum að tala um og um þau umsvif sem eru innan skólans til þess að unnt sé að ganga til samninga um að byrja að vinna á þeim halla sem er í hverum skóla fyrir sig. Þetta er misjafnt eftir skólum, enda er það eðlilegt. Þeir eru í misjafnri stöðu. En ég held að í það stefni að við náum þeim forsendum í viðræðum okkar við skólana að unnt sé að snúa vörn í sókn eins og ég orðaði það. Hvað tekur síðan langan tíma að eyða þessum halla eða vinna á vandanum kemur í ljós miðað við það fjármagn sem við höfum hverju sinni. Ég held bæði varðandi Menntaskólann í Kópavogi og líka skólann á Akranesi að í viðræðum ráðuneytisins hafi náðst samkomulagsgrundvöllur um umsvifin í skólastarfinu.