Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:15:47 (2019)

2001-11-27 21:15:47# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lagði fram fjárlagafrv. sitt á fyrstu dögum haustþings. Á þeim tíma hljóðaði tekjuhlið þess upp á 257,9 milljarða kr. en gjaldahliðin upp á 239,3 milljarða. Tekjujöfnuður var því 18,6 milljarðar.

Frá því að fjárln. tók við frv. hefur margt gerst í fjármálum þjóðarinnar og verið áætlað að gerist sem taka verður tillit til við endanlega afgreiðslu fjárlaganna. Við þessa umræðu er því aðeins verið að ræða það sem búið er að útfæra en annað sem þarf frekari skoðunar við kemur við 3. umr.

Mér hefur fundist, herra forseti, gæta alvarlegs misskilnings hjá stjórnarandstöðunni í fjárln., þ.e. að halda að allar breytingar á fjárlögum eigi að liggja fyrir við 2. umr. Það hefur aldrei verið svo, það ég viti. Þetta lýsir fyrst og fremst taugaveiklun stjórnarandstöðunnar í þessu máli.

Auðvitað er frv. til skoðunar fram á síðustu klukkustund áður en það verður lögfest svo að nýjustu og öruggustu tölurnar séu þar þegar Alþingi fær það til lokaafgreiðslu. Það eru fagleg vinnubrögð, herra forseti, að mínu áliti og ábyrg. Krafa stjórnarandstöðunnar um sérstakan fund í fjárln. í gær vegna ummæla hæstv. forsrh. um breytingar á fjárlögum var því hálfhjákátleg í ljósi þess að þessi mál eru í stöðugri skoðun. 2. umr. er ekkert plat heldur er verið að ganga frá þeim málum sem liggja hrein fyrir og samstaða er um.

Niðurstöðutölur á gjaldahluta fjárlaganna breyttust um 2,3 milljarða kr. í meðförum fjárln. en tekjuhlutinn verður ekki hreyfður fyrr en við 3. umr. Gjaldaliðirnir verða því um 241,6 milljarðar kr. og hækka um 0,96% á milli umræðna. Þessi aukning skiptist þannig að tillögur ríkisstjórnarinnar auka gjöldin um 1,9 milljarða kr. og tillögur fjárln. sjálfrar gera ráð fyrir 0,4 milljarða kr. hækkun.

Sú tilfinning fjölmiðla fyrir þessum tölum, að fjárln. sé að hækka alla liði meðan ríkisstjórnin rembist við að skera niður, er því á misskilningi byggð. Allar tillögurnar eru þó lagðar fram í nafni meiri hluta fjárln. enda frv. í höndum fjárln. til afgreiðslu. Það er samt svo, eins og eðlilegt má teljast, að ríkisstjórnin og meiri hluti fjárln. lagfæra sameiginlega með tillögugerð einstaka liði eftir því sem þurfa þykir fram á síðustu klukkutíma eins og ég sagði áðan.

Fjárln. hefur við þá vinnu sem snýr að hennar tillögum haft að leiðarljósi ákveðin markmið. Þau markmið hafa undanfarin ár verið nokkurn veginn óbreytt og beinast að mestu að þremur málum, þ.e. menningartengdri ferðaþjónustu um allt land, fjarkennslu og símenntun um land allt og landshlutabundinni skógrækt.

Mikill fjöldi verkefna við menningartengda ferðaþjónustu hefur komið á borð fjárln. og fengið þar úrlausn. Þau snúa að því að byggja upp aðstöðu svo sinna megi, í víðustum skilningi, ferðamennsku og afþreyingu. Þar má nefna styrki til að endurbyggja beituskúr á Grenivík, fjárrétt í Aðaldal, báta eins og Blátind í Vestmannaeyjum og Kútter Sigurfara á Akranesi, gömul hús eins og Brydebúð í Vík í Mýrdal og Duushús í Keflavík, söfn sem jafnframt eru leikhús og samkomustaðir eins og Njálusetrið á Hvolsvelli, Galdrasafnið á Ströndum og Síldarminjasafnið á Siglufirði.

Á þessari braut er haldið áfram með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir frá meiri hluta fjárln. og vil ég leyfa mér, herra forseti, að nefna hér nokkur af þessum verkefnum.

Fyrst vil ég nefna Galdrasýninguna á Ströndum sem nú fær 7 millj. kr. Þessa sýningu sóttu um 6 þúsund manns í sumar og vöktu uppákomur þarna verðskuldaða athygli ferðamanna og hrós fyrir fagmennsku og metnað. Ljóst er að frekari uppbygging er nauðsynleg og því leggur fjárln. þetta til.

Duushúsin í Keflavík eru elstu hús Reykjanesbæjar og á vegum bæjarins er áætluð mikil uppbygging enda um mjög stór og mikil hús að ræða sem hafa verið vöruhús fram að þessu. Ákveðið hefur verið að flytja byggðasafn bæjarins inn í þetta hús en þarna er nú þegar komið bátasafn Gríms Karlssonar sem var til umræðu í fyrra. Þarna mun verða eitt fegursta húsasvæði á landinu öllu. Meiri hluti fjárln. leggur til að 7 millj. kr. verði veittar í þetta verkefni.

Gerðahreppur er einn elsti útvegsstaður landsins og á þeirra vegum er áformað að byggja mjög nýtískulegt byggðasafn sem verði sérhæft sem sjóminjasafn. Meiri hlutinn leggur til að 3 millj. kr. verði settar til að koma þessum framkvæmdum af stað en Garðmenn hafa byggt upp mjög öflugt sjóminjasafn í gömlum skúrum sem þarna eru.

Saltfisksetur Íslands í Grindavík er einnig metnaðarfullt verkefni á þessum slóðum sem bæjaryfirvöld þar hafa hrint af stað. Það er vel við hæfi að setja slíkt upp í Grindavík, einum allra stærsta útgerðarstað landsins um árhundruð.

Um þetta segir í umsókn þeirra Grindvíkinga, með leyfi forseta:

,,Saltfisksetur Íslands mun setja upp og reka sýningu tileinkaða saltfiski. Markmið sýningarinnar er að:

Safna saman og varðveita muni og myndir sem segja sögu saltfisksins í þeim tilgangi að kynna fyrir almenningi og ferðamönnum mikilvægi þessa atvinnuvegar fyrir íslenskt samfélag.

Sinna fræðslustarfi fyrir skóla og aðrar menntastofnanir um saltfiskvinnslu og samfélagsleg áhrif hennar á Íslandi.

Veita afþreyingu til ferðamanna sem sækja Grindavík heim, kynna fyrir gestum saltfisk, bragð hans og gæði með sérstakri áherslu á hreinleika íslensku vörunnar og fjölbreytta möguleika í matargerð.``

Ýmislegt fleira má nefna sem snýr að Suðurnesjunum. Má þar nefna Sædýrasafnið í Höfnum en þangað sækja yfir 20 þúsund manns árlega en 3 millj. kr. styrkur er veittur þangað í ár eins og í fyrra.

Fræðasetrið í Sandgerði fær 2 millj. kr. í ár en Fræðasetrið sækja um 7 þúsund manns árlega.

Veruleg aðstoð er við meðferðarheimilin á svæðinu, í Krýsuvík og eins við Byrgið í Rockville, en þessi tvö heimili hafa orðið verulega út undan. Það er saga út af fyrir sig hvernig staða þeirra hefur orðið svo erfið sem raun ber vitni. Til að létta undir með þessum aðilum er tillaga um að Byrgið fái 10 milljónir og Krýsuvík 5 millj. kr. til viðbótar við fjárlagatillögu ráðherra.

Sýningahald og uppbygging á Sögusetrinu á Hvolsvelli fær 7 millj. kr. en ótrúlegur árangur hefur náðst við að sýna og túlka Njálssögu, svo eftir hefur verið tekið langt út fyrir landsteinana.

Eina nýja framkvæmd vil ég nefna hér en það er framkvæmd á Gaddstaðaflötum við Hellu. Hestamenn og sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi hafa náð um það samstöðu að Gaddstaðaflatir verði framtíðarlandsmótsstaður sunnlenskra hestamanna. Þeir hafa þegar keypt grindurnar sem héldu uppi tívolíinu í Hveragerði. Hvergi á landinu eru fleiri hestar eða hestamenn en á Suðurlandi og því full ástæða til að aðstoða þá við að hefja það starf sem þarna er áformað með byggingu reiðhallar og landsmótsaðstöðu. Tillaga meiri hluta fjárln. er upp á 7 millj. kr.

Ég vil einnig nefna tillögu meiri hlutans um að styrkja lagningu ljósleiðara að skólahverfinu við Laugarvatn, upp á 8 millj. kr. Engum hefði svo sem dottið í hug að ekki væri búið að leggja ljósleiðara að þessu menntasetri.

Að lokum vil ég nefna eitt verkefni, herra forseti, en það er skólaskipið Dröfn, sem hefur undanfarin ár farið í fræðsluferðir með grunnskólabörn alls staðar að af landinu. Þau skólabörn skipta í dag tugum þúsunda sem fá þar sína fyrstu reynslu af sjómennsku og jafnvel þá einu á okkar nýja Íslandi. Það var ávallt hugmyndin að sveitarfélögin tækju þetta verkefni að sér að hálfu á móti ríkinu eða jafnvel að öllu leyti. Ekki náðist samkomulag um það við sveitarfélögin á reynslutíma verkefnisins að þau tækju þessa fræðslu að sér. Um borð í Dröfninni er úrvalsáhöfn ásamt fiskifræðingi sem fer yfir starf Hafró og skýrir fyrir börnunum hvernig lífið í sjónum er. Áhöfnin setur veiðarfæri í sjó, t.d. troll, og er sá afli sem inn kemur skoðaður af fagmönnum og greindur. Samstarfið við Hafró hefur verið til mikillar fyrirmyndar að öllu leyti.

Sjútvrn. hefur sett um 5 millj. kr. í þetta verkefni árlega og með jafnmiklu viðbótarfjármagni frá Alþingi hefur tekist að halda úti sömu dagskrá undanfarin ár, þrátt fyrir að upphæðirnar sem Hafró fær fyrir rekstur skipsins hafi ekki hækkað. Þar er fyrst og fremst að þakka velvilja Hafró og hæstv. sjútvrh.

Ég hef fundið það í hv. fjárln. að nefndarmenn hafa almennt mikinn skilning á mikilvægi þessa þáttar og því að þetta gægjugat sé opið fyrir ungt fólk til að kynnast um stund lífinu um borð í fiskiskipi. Þær 5 millj. kr. sem hér eru lagðar til teljast því eðlilegt framlag og þjónusta hins opinbera við ungdóminn hjá þjóð sem byggir afkomu sína að mestu á sjónum.

Herra forseti. Hér hef ég talið upp nokkur verkefni sem lagt er til að styrkja, verkefni sem dreifð eru um allt land. Ég trúi því að slík aðstoð styrki landsbyggðina verulega og dreifi um leið ferðamönnum víðar um landið en annars hefði orðið. Þetta eru verkefni sem brenna á fólkinu og sveitarfélögunum að koma á framkvæmdarstig og ég efa ekki að þessi framlög mundu auka bjartsýni á þessum stöðum.

Ég heyri það frá sumum hv. þm. að það sé ekki í okkar verkahring að skipta sér af framkvæmdum. Ég verð hins vegar að segja að ef ekki kæmi til þekking einstakra þingmanna á aðstæðum og þörfum í þeirra eigin kjördæmum og vilji þeirra til að bæta úr þar sem þörf er fyrir slíkt þá væri fátæklegra um að litast á þessum stöðum og fólksflóttinn væri enn meiri en nú er. Ég tel það reyndar skyldu þingmanna að koma málum kjördæma sinna á koppinn með þeim ráðum sem þeir hafa. Ástæðan fyrir því að skipta landinu upp í kjördæmi er einmitt sú að þingmenn geti sérhæft sig um ákveðin svæði og þjónað þeim. Að sjálfsögðu er lagasetning hugsuð fyrir allt landið en þegar kemur að því að rétta hlut einstakra kjördæma kemur að þingmönnum þeirra að ná fram leiðréttingum eins og kostur er.

Það hefur komið fram, herra forseti, við umræðuna sem hér hefur farið fram að tillögugerð er í gangi sem mun koma fram við 3. umr. Það hefur einnig komið fram hjá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, formanni fjárln., að þar verði allt til skoðunar, bæði til hækkunar og lækkunar á þeim liðum sem koma fram í fjárlagafrv. sjálfu.

Ég vil benda á að verkefni eins og skógrækt hafa ekki verið til sérstakrar meðferðar, ýmsar sjúkrastofnanir hafa ekki heldur verið til sérstakrar meðferðar og eru órædd.

Meginmarkmiðið með þeirri tillögugerð sem er til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni og meiri hluta fjárln. er þó að skila fjárlögunum með verulegum rekstrarafgangi. Það er meira en gert hefur verið í tíð flestra fyrrverandi ríkisstjórna. Árangurinn sem náðst hefur, herra forseti, er til vitnis um styrka fjármálastjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, undir ráðuneyti hæstv. fjmrh. Geirs Haardes. Ég held, herra forseti, að þegar þetta fjárlagafrv. verður samþykkt hér við 3. umr. þá geti þessi ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi verið ánægð með gott dagsverk.