Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:33:26 (2022)

2001-11-27 21:33:26# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort skilja mátti það á orðum hv. þm. að það fyrirkomulag að senda fagnefndum til umsagnar ákveðna þætti varðandi safnliðina, komi til með að verða aflagt, þar sem hann talar þannig að honum finnist ekki mikið til þess koma, herra forseti. Ég vildi gjarnan fá að heyra aðeins nánar um það hjá hv. þm. Hitt er annað mál að við getum ekki rætt þetta ofan í kjölinn í stuttum andsvörum. En það er alveg ljóst að fagnefndir þingsins hafa átt erfitt með að verða við óskum fjárln. vegna þess að svigrúmið hefur einatt verið aukið þegar tillögur nefndanna koma aftur til fjárln.

Ég vil segja, herra forseti, og taka undir með hv. formanni menntmn., að auðvitað er betra að sleppa þessum umsögnum fagnefndanna en að vera að láta fólk eyða ómældum tíma og taka á móti fjölda gesta og láta líta svo út sem nefndirnar hafi eitthvað um málin að segja þegar þær hafa það svo hreinlega ekki.