Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:23:34 (2028)

2001-11-27 23:23:34# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við erum sammála um það meginatriði í þessu máli að við hljótum að leggja meiri áherslu á utanríkisviðskipti og því sé eðlilegt í því ljósi að útgjöld til þessa málaflokks aukist. Það þarf þá bara að skýra af hálfu hv. þm. að hve miklu leyti hann telur aukninguna vera umfram það sem hann teldi að ætti að vera. Út af fyrir sig væri fróðlegt að fá nánari skýringar hjá þingmanninum á því hvað væri, að hans mati, eðlileg aukning og hvað þá umfram það, þannig að við getum áttað okkur á því hvað ber á milli okkar í þeim efnum.

En vegna þess að hann nefndi sendiráðið í Japan, sem vissulega er dýrt, ber að hafa það í huga að langstærsti hluturinn í þeim kostnaði eru kaup á húsnæði undir sendiráðið. Það er ekki gjaldfærsla heldur eignafærsla. Þar er ríkið að fjárfesta í eign sem það á og mun selja þegar þar að kemur og innleysa peninginn. Þá koma þeir inn að fullu sem tekjur og miðað við fasteignaverð í Tókíó um þessar mundir eru taldar allar líkur á því að síðar meir verði verðið miklu hærra þannig að það verði hagnaður af þessum viðskiptum.

Í öðru lagi vil ég geta þess að sá sem fyrstur hóf baráttu fyrir því að opna sendiráð í Japan var þingmaður hér, Hjörleifur Guttormsson (Gripið fram í: Varaþingmaður.) sem er varaþingmaður Vinstri grænna og flutti tillögu um það í þrígang eða fjórum sinnum á Alþingi ... (Gripið fram í: Það voru fleiri flutningsmenn.) og flutningsmenn voru fleiri um tíma. Það var sérstaklega tekið fram í greinargerð með þeirri ágætu tillögu, sem leiddi kannski til þess að farið var í þetta af meiri alvöru, að þetta mundi verða dýrt en það mundi verða þess virði. Það var það sem vakti fyrir flutningsmanni.