Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:25:44 (2029)

2001-11-27 23:25:44# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að þeir framsóknarmenn, bæði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hæstv. utanrrh., sem ég hef heyrt vitna í þetta sama, halda á lofti heiðri Hjörleifs Guttormssonar, fyrrv. hv. þm. Hins vegar er það alveg rétt að hann, af mikilli framsýni sinni fyrir mörgum árum, og studdur án efa af fleiri góðum mönnum, hvatti til þess að við Íslendingar opnuðum fyrsta sendiráð okkar í Asíu. Þá var eðlilegt að menn stöldruðu við Japan því það var náttúrlega ört vaxandi markaður og mikilvægur fyrir Ísland. Á þeim tíma var Kína hins vegar nánast lokað og var ekki fyrr en allmörgum árum seinna að málin þróuðust þannig að farið var í að opna sendiráð í Kína á undan því í Japan sem hv. þáv. þm. Hjörleifur Gottormsson lagði til á þeim tíma.

Ég tek fram, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að ég hef verið stuðningsmaður þess að utanríkisþjónustan væri efld. En það hlýtur að mega ræða um kostnaðinn sem því er samfara, eða hvað? Ég spyr bara: Eru menn ósáttir við eitthvað af því sem hér er reifað í þessu ákaflega hógværa minnihlutaáliti? Er þetta mál eitthvað viðkvæmt? Mega þessar tölulegu staðreyndir t.d. ekki koma fram eða er ekki rétt reiknað? Ég skal þá taka það á mig því ég reiknaði þetta á minn vasareikni.

Ég er ósköp einfaldlega að velta þessu upp af því að mér finnst eðlilegt að skoða þetta. Erum við ekki til þess í þessum fagnefndum þingsins? Til hvers er fjárln. að senda okkur þetta? Er það ekki til þess að við förum yfir þetta? Er þá eitthvað að því að menn vinni vinnuna sína? Ég tel svo ekki vera, ég tel að ég hafi verið að gera skyldu mína með því að fara yfir málið með þessum hætti.

Ég viðurkenni alveg að ýmislegt í aðstæðum bendir til þess að lítið sjálfstætt ríki eins og Ísland geti þurft að búa sig undir að ráðstafa heldur hærri hlut ríkisútgjalda sinna til utanríkis- og alþjóðamála. Ég er þá ekkert síður að hugsa um alþjóðastjórnmál og þróunina í þeim efnum en endilega utanríkisviðskiptin, sem reka sig mikið sjálf. Sumir telja einmitt að kannski sé ekki þörf fyrir þessi gömlu hefðbundnu sendiráð vegna þess að netið og annað slíkt leysi þau að hluta til af hólmi.

En hvernig sem því öllu viðvíkur þá hlýtur að vera skynsamlegt að reyna að ráðstafa takmörkuðum peningum sem skynsamlegast.