Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:48:43 (2033)

2001-11-27 23:48:43# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hljóti að mega ræða útgjöldin sem eru samfara stofnun þessa sendiráðs í Japan þó að maður hafi verið og sé stuðningsmaður þess að Íslendingar hafi sendiráð í þessu öðru stærsta hagkerfi heimsins. Það er allt rétt í því sem hæstv. utanrrh. sagði, 60%. Og þegar það jókst reyndar sem mest hér á árunum stefndi í að það færi fram úr bandaríska hagkerfinu, 2010 ef ég man rétt, en það mun nú ekki rætast.

Þeir kostir sem voru kynntir í þessu sambandi í utanrmn. voru einfaldlega þeir að kaupa eða leigja. Ég er ekkert að deila um það að leigan var ekki fýsilegur kostur þarna. Þetta er samt dýrt, hæstv. utanrrh. Og ég tel að hæstv. utanrrh. sé að taka skakkan pól í hæðina að bregðast öndverður við þó að þetta mál á hans málasviði sé rætt, að ég tel á afar málefnalegan og hógværan hátt. Það eru ekki stóryrðin hér. Ég kannast ekki við að ég hafi haft um þetta önnur og eftir atvikum óvægari ummæli annars staðar. Ég man ekki til þess að ég hafi mikið tjáð mig um þetta við fjölmiðla yfir höfuð. En dýrt er drottins orðið, hefði nú einhvern tíma verið sagt.

Varðandi hagsmuni ferðaþjónustunnar er ég ekki sammála hæstv. utanrrh. Ég geri ekki mikið með það að þetta sé einhver sérstakur búhnykkur. Auðvitað er það að jafnaði þannig að stórir alþjóðlegir atburðir hafa í för með sér ákveðin umsvif. En þessi atburður er fyrir það fyrsta ekki fyrr en um miðjan maí þegar nýting er hvort sem er orðin allgóð á gistirými hér í Reykjavík, gjarnan svona frá 50--70% á axlartímabilunum, síðari hluti apríl, maímánuður og svo aftur í september, október. Það getur meira að segja að sumu leyti verið neikvætt að fá mjög stóran atburð inn þegar kominn er talsverður annatími í ferðaþjónustunni því að það ryður þá öðrum og föstum viðskiptum út. Ég geri ráð fyrir því að hótel hafi verið blokkbókuð hér í stórum stíl í Reykjavík þannig að kostur almennra ferðaþjónustuaðila sé býsna þröngur þá daga sem þessi ráðstefna stendur. Þetta er því ekki, hæstv. utanrrh., einhliða jákvætt.