Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 23:51:07 (2034)

2001-11-27 23:51:07# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[23:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með útskriftir af ummælum hv. þingmanna Vinstri grænna um sendiráðið í Japan. En ég er helst á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi sagt ýmislegt um það mál í fjölmiðlum, ef mig rekur rétt... (ÖJ: Um hvað?) um sendiráð í Japan ef mig rekur rétt minni til en hann er þó einn af þeim sem mér skilst að hafi samþykkt þessa tillögu á sínum tíma.

Ég er að fara fram á það að menn séu samkvæmir sjálfum sér en breyti ekki alltaf um þegar mönnum finnst henta og finnst vera jarðvegur fyrir því (ÖJ: Svona opið í báða enda, meinarðu?) og finnst áróðursstaðan vera þannig að það sé heppilegt að skipta dálítið um skoðun. (Gripið fram í.)

En að því er varðar fund NATO liggur það alveg ljóst fyrir að það er eftirsóknarvert að halda þennan fund. Ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson ætti ekki að vera að tala mikið um skapvonsku í ræðustól, svona miðað við fyrri reynslu. (ÖJ: Ég spurði hvað hefði verið í matinn.) Ég skal upplýsa það, það var íslensk fjallarjúpa sem er afar góður matur og fer vel í hv. þm. sem hér stendur.

En það er mjög eftirsótt að halda þessa fundi og það er líka afskaplega eftirsótt að vera í Atlantshafsbandalaginu. Kannski eru hv. þm. farnir að átta sig á að það er mjög eftirsótt. Ég býst við að það sé ekkert vandamál að fá aðra þjóð til að yfirtaka þennan fund ef menn telja æskilegt og nauðsynlegt að gera það. En ég er ekki viss um að það auki mjög hróður Íslands að vilja lítið eða ekkert á sig leggja í þessu samstarfi. (ÖJ: Nú, er þetta ekki allt til góða?) Allt til góða, það er allt til góða. Og ég vona að það hafi góð áhrif á skap hv. þm. --- mér sýnist hann bara vera farinn að brosa.