Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:04:16 (2077)

2001-11-28 13:04:16# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur átt mjög gott og náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins í því skyni að varðveita þjóðarsáttina. Hægt væri að nefna mörg dæmi um aðgerðir í þessu skyni, t.d. skattalækkanir, hækkanir á barnabótum, hækkanir á tryggingabótum til aldraðra og öryrkja og margar aðrar aðgerðir sem farið hefur verið út í í fullu samráði við verkalýðshreyfinguna. Það má m.a. geta þess að nú 1. janúar kemur til framkvæmda skattalækkun sem ákveðin var af Alþingi sl. vor í samráði við verkalýðshreyfinguna, m.a. í því skyni að varðveita stöðugleika í þjóðfélaginu. Þessu verður að sjálfsögðu haldið áfram og haft um það náið samráð við aðila vinnumarkaðarins eins og hingað til.

Það er rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að verðbólga er heldur hærri en gert var ráð fyrir. Það eru ýmsar skýringar á því. Hins vegar gera allar spár ráð fyrir því að verðbólga fari á ný lækkandi. Það er alveg ljóst að forsenda þess að svo geti orðið er að bærileg sátt ríki í þjóðfélaginu og ekki komi til uppsagna kjarasamninga. Það eru allir meðvitaðir um það, bæði ríkisstjórnin, vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin. Við munum að sjálfsögðu halda þessu starfi áfram og ég tel enga ástæðu til þess að breyta því formi sem þar hefur verið viðhaft. Það samstarf hefur gengið vel þó að menn hafi ekki alltaf verið sammála um alla hluti frekar nú en endranær. Svarið við spurningu hv. þm. er að sjálfsögðu: Já, við munum halda þessu samstarfi áfram í því skyni að tryggja áframhaldandi þjóðarsátt um stöðugleika í samfélaginu.