Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:10:41 (2080)

2001-11-28 13:10:41# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:10]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. talaði eins og þjóðarsáttarsamráð ríkti hér um stjórn efnahagsmála og hefði gert hingað til. Hæstv. fjmrh. sagði hins vegar að það væri ekki hægt að hafa samráð um alla skapaða hluti.

Herra forseti. Það hefur ekki verið haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, við samtök atvinnulífsins og við samtök launafólks, um þróun efnahagsmála. Afleiðingar þessa skorts á samráði eru nú að koma fram af fullum þunga, herra forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki full tök á hagstjórninni og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Stöðugleikinn er í hættu og það blasir við að forsendur kjarasamninga eru brostnar ef ekkert er að gert.

Ástandið er alvarlegt, herra forseti. Í umræðunum síðustu daga hefur ástand efnahagsmála verið rakið að öðru leyti, hvernig fyrirtækin eru mörg hver að sligast undan gengisþróuninni, verðbólgan fer vaxandi, vaxtastig er hátt og svigrúm til launahækkana hefur verið takmarkað með hækkun á tryggingagjaldi. Afleiðingar þessa eru þær að forsendur kjarasamninga eru í hættu. Það er alvarlegt mál, herra forseti.

Hafi það verið svo að hæstv. ríkisstjórn telji að samráð hafi verið haft um þessi mál þá er sannarlega kominn tími til fyrir hæstv. ríkisstjórn að endurskoða hvað felst í slíku samráði og í hvaða formi það eigi að vera. Samtök launafólks standa frammi fyrir því að þurfa að taka upp launalið kjarasamninga verði ekkert að gert. Um þetta hefur verið ályktað hjá fjölmörgum þessara samtaka og hæstv. ríkisstjórn verður að gera svo vel að horfast í augu við þau mistök sem hugsanlega hafa verið gerð og kalla eftir samráði til að forða því að þau hafi frekari afleiðingar.

Ég kalla því eftir því að hæstv. ríkisstjórn taki upp vitrænar aðgerðir til að forða því að ástandið versni, sem felast í því sem hér hefur komið fram hjá hv. málshefjanda, að fara í þríhliða samstarf, formlegt samstarf við aðila vinnumarkaðarins um þróun efnahagsmála á næstunni. Annars siglum við inn í enn alvarlegra ástand, herra forseti.