Staða efnahagsmála

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:12:56 (2081)

2001-11-28 13:12:56# 127. lþ. 37.91 fundur 165#B staða efnahagsmála# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:12]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. taldi þessa umræðu vera af litlu tilefni. Það er að sjálfsögðu ekki lítið tilefni þegar komið er í slíkt óefni í efnahagsmálum þjóðarinnar að forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru brostnar.

Hæstv. utanrrh. taldi það grundvöll þess að hægt yrði að lækka verðbólgu að komið yrði í veg fyrir að kjarasamningum yrði sagt upp. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. Það er meginmarkmið ríkisstjórnarinnar á næstu dögum og vikum að tryggja að ekki þurfi að koma til uppsagnar kjarasamninga. En til þess að svo megi vera verður auðvitað að taka upp samráð. Samráðið getur ekki falist í tilskipunum eða tilkynningum frá öðrum aðilanum til hins aðilans. Þess vegna er eðlilegt að vekja athygli á því að verkalýðshreyfingin hefur óskað eftir formlegum viðræðum við ríkisstjórnina um hvernig koma megi í veg fyrir að kjarasamningum verði sagt upp. Það er lykilatriði.

Auðvitað ber að fagna því að hæstv. fjmrh. telji að vilji sé til að hafa gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins á næstu vikum. Því miður verður að mótmæla því að svo hafi verið að undanförnu að samstarfið hafi verið gott. Hæstv. fjmrh. benti einmitt sjálfur á að ekkert samráð hefði verið haft við aðila vinnumarkaðarins um tillögur til breytinga á skattalögum. Rétt er að minna á að þær tillögur sem liggja fyrir um að hækka tryggingagjald munu að sjálfsögðu torvelda frekar en hitt að komið verði í veg fyrir að kjarasamningum verði sagt upp.