Fjárlög 2002

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:32:27 (2092)

2001-11-28 13:32:27# 127. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í ljósi þess að margt bendir til að staða ríkissjóðs muni veikjast á komandi mánuðum og missirum, í ljósi þess að margar mikilvægar stofnanir í heilbrigðis- og velferðarþjónustunni eru fjárhagslega mjög aðþrengdar og þurfa á auknu fjármagni að halda og í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ekki séð sér fært að standa við fyrirheit og loforð við samtök fatlaðra um að útrýma biðlistum eftir húsnæði, í ljósi alls þessa ber okkur að ráðstafa skattpeningum almennings á skynsamlegan og réttlátan hátt.

Að okkar mati blasir við að stöðva fjáraustur ríkisstjórnarinnar í fyrirhugaðan NATO-fund sem mun þegar upp verður staðið kosta mörg hundruð millj. kr., a.m.k. hátt á fjórða hundrað millj. kr. Með því að samþykkja þessa tillögu spörum við skattborgaranum 170 millj. kr.