Fjárlög 2002

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:45:46 (2096)

2001-11-28 13:45:46# 127. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er hæstv. ríkisstjórn að afla sér, samkvæmt þeirri venju sem hefur verið að skapast undanfarin ár, heimildar til ýmiss konar ráðstafana á jarðnæði í eigu ríkisins. Nú er það svo að sumar af þessum heimildum getur verið fullkomlega eðlilegt að hafa tiltækar, ef í hlut á t.d. sala jarða til ábúanda á bújörðum sem samkvæmt lögum eiga kauprétt, en í öðrum tilvikum, eins og dæmin sanna, hafa hæstv. ríkisstjórn vægast sagt verið mislagðar hendur þegar komið hefur að því að fara með þessar eignir ríkisins. Afstaða okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, er almennt sú að ríkið eigi ekki að láta frá sér jarðnæði nema í þeim tilvikum að um sé að ræða sölu til ábúanda á bújörðum eða sölu til sveitarfélaga.

Að öðrum kosti er þetta jarðnæði að okkar dómi betur komið í eigu almennings í landinu og í höndum ríkisins fyrir þess hönd, svo ekki sé minnst á það hversu gagnrýnisverð framkvæmd hæstv. ríksstjórnar á þessu sviði hefur iðulega verið.

Þennan fyrirvara, herra forseti, vildi ég sérstaklega hafa á um afstöðu okkar til þessara liða.