Viðbragðstími lögreglu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:02:24 (2104)

2001-11-28 14:02:24# 127. lþ. 38.91 fundur 169#B viðbragðstími lögreglu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en bregðast við þessum síðustu orðum hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns þingflokks Sjálfstfl. Hún kvartar sérstaklega yfir því að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar séu spurðir spurninga. Hún kvartar sérstaklega yfir því, þegar í ljós kemur að svör þeirra eru ekki í samræmi við veruleikann, að þá sé ekki mjög stórmannlegt af hálfu þingmanna að spyrja út í það og þar með sé ráðist að einstökum ráðherrum. Hvers konar þvæla er þetta, herra forseti? Hvaða dellumakarí er hér á ferðinni? Réttur þingmanna er einfaldlega skýr og afdráttarlaus í þingsköpum, rétturinn til að afla upplýsinga frá framkvæmdarvaldinu. Það voru þingmenn að gera og nákvæmlega það var á ferðinni hér fyrir viku.

Hæstv. ráðherra veit betur núna og kemur fram fyrir þingheim og gerir grein fyrir því sem hún vissi ekki fyrir viku. Fyrir það var þakkað. Flóknara er þetta mál ekki.