Útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:12:01 (2110)

2001-11-28 14:12:01# 127. lþ. 38.1 fundur 238. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Hún er alveg ótrúleg, ólundin í hæstv. menntmrh. Ég hvet hann --- það er ekki að tilefnislausu sem ég hafði þennan inngang að fyrirspurn minni --- til að lesa eigin skrif á netinu þar sem hann varði löngum tíma í síðasta netpistli sínum til að fara yfir það að menn væru hér í ýmiss konar smásmygli og ýmiss konar smáatriðatíningi á eftir ráðherrum. Það var tilefni inngangs míns.

Herra forseti. Ólund hæstv. ráðherra er svo mikil að hann lætur ekki svo lítið að koma fram með efnisleg svör. Spurning mín var um hvernig þetta mál stæði í tíma, hvort þess væri að vænta að eitthvað gerðist raunverulega í málinu annað en að það yrði skoðað áfram. Svo var þó ekki að heyra á þessu örstutta og snautlega svari hæstv. ráðherra. Ekki virtist annað í gangi en áframhaldandi athugun og skoðun. Það er ekki að undra þó að hv. þm., áhugamaður um þetta mikilsverða mál, hv. þm. Guðjón Guðmundsson, sjái sig knúinn til að flytja sérstaka þáltill. á nýjan leik um málið. Ég vil við þetta tækifæri lýsa yfir eindregnum stuðningi við þá tillögu. Ég sé í hendi mér að þingið þurfi auðvitað að koma beint að þessu máli til að það fái þann framgang sem því ber. Það liggur algerlega í augum uppi.