Sérframlag til framhaldsdeilda

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:19:32 (2114)

2001-11-28 14:19:32# 127. lþ. 38.3 fundur 244. mál: #A sérframlag til framhaldsdeilda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Komið hefur fram við rannsóknir á byggðaþróun hér á Íslandi að ein af meginástæðum byggðaröskunar er of lítið námsframboð úti í hinum dreifðu byggðum.

Nemendur fara brott til að stunda nám í fjarlægum byggðum og koma ekki heim aftur, og á eftir þeim fara svo oft og tíðum fjölskyldurnar því að það er dýrt að halda úti börnum við nám í fjarlægum landshlutum. Ég verð að segja að þegar skorið er núna niður sérstakt framlag til framhaldsdeilda í þessum fjárlögum finnst mér vera höggvið þar sem hlífa skyldi. Auðvitað eigum við að standa vörð um það að hægt sé að bjóða upp á slíkt nám sem víðast og þá með aðstoð fjarnáms.