Sérframlag til framhaldsdeilda

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:20:38 (2115)

2001-11-28 14:20:38# 127. lþ. 38.3 fundur 244. mál: #A sérframlag til framhaldsdeilda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra eru núna starfandi framhaldsdeildir í Stykkishólmi og Ólafsvík, og svo er sérstakt framhaldsnám í Grundarfirði.

Mér er kunnugt um að á undanförnum árum og enn þann dag í dag hafa viðkomandi framhaldsskólar sem bera bæði faglega og fjárhagslega ábyrgð á þessum deildum sagt að þeir fengju ekki þann fjárhagslega stuðning sem þyrfti til að standa straum af þeim kostnaði sem þarna hlytist af. Þess vegna þyrfti að auka þarna við fjárveitingar. Að vísu er það rétt hjá hæstv. ráðherra að nú nýverið fékk Fjölbrautaskólinn á Akranesi 4 millj. kr. í stjórnunarkostnað aukalega, að ég hygg, til að stýra þessum deildum. Engu að síður sagði viðkomandi skólameistari við mig að þetta væri í sjálfu sér of lítið. Þessar deildir hafa starfað í fullkomnu óöryggi frá ári til árs einmitt vegna fjárskorts eða óöryggis með fjármagn.

Auk þess, herra forseti, er eitt öflugasta tækið í byggðamálum það að styrkja menntun úti um land. Því ber að gera það með öllum tiltækum ráðum. Ég tel þau skilaboð í fjárlagafrv., að skera eigi niður í sparnaðarskyni þessa sérmerktu litlu fjárveitingu upp á milli 7 og 8 millj. kr. sem hefur mátt ráðstafa til að styrkja framhaldsdeildir víða um land, vera óheppileg og döpur til þeirra sveitarfélaga sem hefðu áhuga á að reyna að koma slíku á.

Herra forseti. Ég hvet hæstv. menntmrh. til að endurskoða þetta. Þetta er ekki sú upphæð sem skiptir ríkissjóð meginmáli en þetta eru skýr skilaboð til viðkomandi byggðarlaga.