Sérframlag til framhaldsdeilda

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:22:59 (2116)

2001-11-28 14:22:59# 127. lþ. 38.3 fundur 244. mál: #A sérframlag til framhaldsdeilda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta eru ekki skilaboð til neinna byggðarlaga því að eins og hér hefur komið fram á þetta við einn skóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands, og um er að ræða Stykkishólm og Ólafsvík og það er búið að láta Fjölbrautaskóla Vesturlands hafa sérstaka peninga til að sinna þessu verkefni. Það er þannig ekki verið að senda nein sérstök skilaboð með þessu. Það er líka verið að fella þetta inn í reiknilíkan skólanna eins og ég rakti.

Ég held að vandinn í þessum málum sé ekki sá sem hv. þm. er alltaf að ræða um, að það séu styrkir af þessu tagi sem ráði því hvort fólk búi úti á landsbyggðinni, eins og ég hef áður bent hv. þm. á. Það er hin þröngsýna stefna, m.a. í atvinnumálum, sem Vinstri grænir boða sem veikir tiltrú fólks á því að búa úti á landi en ekki spurningin um það hvort settar séu 7,5 millj. í framhaldsdeildir við framhaldsskóla. Það eru þau skilaboð sem stjórnmálamenn eins og Vinstri grænir eru að setja með þröngsýnni stefnu sinni í atvinnumálunum og andstöðu sinni við uppbyggingu á landsbyggðinni sem veldur því að fólk flytur þaðan en ekki spurningin um sérmerkta peninga í slíkt skólastarf.

Ég vil einnig minna hv. þm. á það sem hefur farið fram hjá honum, byltinguna sem orðið hefur í fjarkennslu þegar nemendum hefur fjölgað þar um þúsund á milli ára, og hve aukin þjónustan er þar. Hv. þm. er í raun og veru, eins og líka í atvinnumálunum, gamaldags þegar hann ræðir um skólamál á þessum þröngsýnu forsendum sem hann leggur til grundvallar þegar hann ræðir um skólamálin. Það eru nákvæmlega sömu viðhorfin og þegar hann ræðir um atvinnumálin. Hann horfir fram hjá breytingunum, hann horfir fram hjá þróuninni, hann horfir fram hjá hinum nýju tækifærum sem verið er að bjóða í fjarnámi og með nýjum atvinnuháttum sem Vinstri grænir vilja ekki viðurkenna, vilja ekki horfast í augu við heldur leggjast gegn og segja að það sé einhverjum öðrum að kenna, það sé spurning um styrki til framhaldsdeilda hvort fólk búi úti á landsbyggðinni.