Rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:37:32 (2124)

2001-11-28 14:37:32# 127. lþ. 38.5 fundur 298. mál: #A rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Það olli mér sannarlega vonbrigðum að hæstv. ráðherra virtist ekki hafa lesið fyrirspurnina. Hún gaf að mörgu leyti ágætt svar almennt en ég sakna þess að fá ekki að heyra um það sem ég spurði sérstaklega um.

Þegar yfirlýsingar komu frá hæstv. ráðherra í kjölfar þess að þessi skýrsla var birt batt ég miklar vonir við að hún mundi beita sér fyrir því að Samkeppnisstofnun rannsakaði málið. Þegar það tók svo að berast mér til eyrna að þeir gætu því miður ekkert unnið í þessu máli eða mjög lítið vegna fjárskorts hélt ég að þar væri kannski bara beðið eftir fjárlögunum. Svo sá þess engan stað þar að sérstaklega væri gert ráð fyrir að í þetta væru ætlaðir peningar. Ég verð að ítreka það hér við hæstv. ráðherra að til þess að þessi rannsókn geti farið fram fljótt og vel og við getum haft af henni hag, sem er mjög brýnt fyrir íslenska neytendur, þá þarf auðvitað að leggja til þeirra fé.

Hvað varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að allir hefðu nóg að bíta og brenna á Íslandi þá verð ég því miður að segja að ég hef samband við nokkrar fjölskyldur sem eru í miklum vandræðum við að sjá sér farborða, þó fólk leggi nótt við dag og sé ekki í neinni óreglu eða neinu slíku. Matvöruverð, húsaleiga og allt sem fólk þarf að leggja sér til hefur hækkað svo gríðarlega, langt umfram það sem laun hafa hækkað hjá þessu fólki, sem er bara á umsömdum lágmarkslaunum.