Afurðalán í landbúnaði

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:42:13 (2126)

2001-11-28 14:42:13# 127. lþ. 38.4 fundur 271. mál: #A afurðalán í landbúnaði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. iðnrh. Eins og öllum er kunnugt lenti landbúnaðurinn og sérstaklega bændur sem voru með búfé, sauðfé, nautgripi og svín, í miklum hremmingum á liðnu sumri þegar fyrirtækið Goði ákvað að loka sláturhúsum sínum og lenti síðan í rekstrarstöðvun og mál þeirra voru í uppnámi. Einn liðurinn í að leysa úr þeim hnút sem þá skapaðist þegar sláturhúsin stóðu lokuð bændum fyrir búfé þeirra, var að Byggðastofnun kom inn í og veitti bakábyrgð á afurðalánum, en viðskiptabankarnir höfðu annaðhvort tregðast við að veita lán eða veittu þau á svo háum vöxtum að þau voru óaðgengileg.

Eftir samninga leystust málin þannig, eftir því sem fram kom í fréttum, að Byggðastofnun veitti bakábyrgð fyrir þessi lán. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. iðnrh.:

1. Hverjir eiga rétt á að nýta sér bakábyrgð Byggðastofnunar á afurðalánum á þessu hausti?

2. Hvernig breyttust kjörin á lánunum og hver eru þau nú eftir að ábyrgð Byggðastofnunar var veitt?

3. Hvernig fylgir Byggðastofnun því eftir að lántakendum sé ekki mismunað í lánskjörum?

4. Til hve langs tíma er þessi tilhögun um ábyrgð afurðalána ákveðin og hver er þóknun Byggðastofnunar fyrir að veita þessa ábyrgð?

5. Sé litið svo á að ábyrgð Byggðastofnunar á lánum til afurðastöðva nú í haust sé ákveðin byggðaaðgerð, má þá vænta þess að gripið verði til hliðstæðra aðgerða gagnvart fjárþörf annarra atvinnugreina í dreifbýli sem búa við ofurvexti á rekstrarlánum sínum?