Afurðalán í landbúnaði

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:48:28 (2128)

2001-11-28 14:48:28# 127. lþ. 38.4 fundur 271. mál: #A afurðalán í landbúnaði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir afar greinargóð svör og tel að þarna hafi vel tekist til. Hitt hlýtur þó að vekja athygli, þ.e. að viðkomandi viðskiptabankar sem hafa verið með slík viðskipti árum saman skuli ekki geta veitt eðlileg rekstrarkjör á þessum lánum og að grípa verði til óbeinnar ríkisábyrgðar til þess að kjörin geti orðið eðlileg.

Það er því ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi á takteinum hversu miklu viðskiptabankarnir hafi tapað í afurðalánum á undanförnum nokkrum síðustu árum. Mig minnir, herra forseti, að í viðtali við hæstv. landbrh. hafi komið fram að þau töp væru afar lítil eða óveruleg ef þau væru þá nokkur núna um nokkurt skeið. Af þeim orðum virtist því ekki um veruleg áhættuútlán að ræða hjá viðskiptabönkunum. Ég tel, herra forseti, að þetta sýni einmitt hvernig þróunin á þjónustu viðskiptabankana gagnvart frumvinnslugreinunum er að færast á óhagkvæma braut.

Herra forseti. Ég vil einnig inna hæstv. ráðherra eftir því hvort nokkrum hafi verið neitað. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að Byggðastofnun verði að samþykkja kaupanda að afurðunum til að lánsábyrgðin og lánveiting geti farið fram, en til að hafa það á hreinu: Hefur nokkrum verið neitað?

Ég ítreka það, herra forseti, að sú aðgerð sem þarna var gripið til sýnir einmitt hvernig viðskiptahættir viðskiptabankanna eru gagnvart atvinnugreinunum, eins og komið hefur fram í haust.