Gagnkvæmt samstarf við önnur ríki um fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:53:07 (2130)

2001-11-28 14:53:07# 127. lþ. 38.6 fundur 299. mál: #A gagnkvæmt samstarf við önnur ríki um fjármálastarfsemi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Við höfum gerst aðilar að samstarfi ríkja bæði með milliríkjasamningum um skatta, gagnkvæmum tvísköttunarsamningum, en ekki síður samstarfi ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti. Í tengslum við það höfum við sett sérstök lög, löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti. Við höfum vænst þess að þeir aðilar á Íslandi sem eiga viðskipti og sinna fjármálastarfsemi yfir landamæri og raunar erlendir aðilar sem eiga viðskipti og hafa fjármálaumsvif hér, hafi þar með nægar reglur til að geta átt þau viðskipti án þess að til komi sérstök frávik frá daglegum störfum.

Hins vegar kom í ljós fyrr á þessu ári, herra forseti, að Ísland er ekki skráð meðal þeirra lögsagna, þ.e. ríkja og sjálfsstjórnarsvæða, sem hafa birt reglur sínar í Bandaríkjunum. Bandaríkin hafa um margt sínar eigin reglur þar sem við í smærri ríkjum höfum milliríkjasamninga eða fjölþjóðlega samninga. Þær reglur sem hér er átt við eru nefndar í fyrirspurn á þskj. 327 sem ég hef lagt fyrir hæstv. viðskrh., svohljóðandi:

1. Hver er ástæða þess að Ísland er ekki skráð á lista bandarísku skattstofunnar, IRS, samkvæmt ákvæðum þarlendra reglna, þ.e. Revenue Procedure 2000-12, um viðurkennda milligönguaðila, QI, og staðfestar viðskiptareglur?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir slíkri skráningu og er honum kunnugt um áhrif þessa á skattheimtu í viðskiptum íslenskra og bandarískra aðila?