Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:14:15 (2136)

2001-11-28 15:14:15# 127. lþ. 38.7 fundur 277. mál: #A upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og svör hæstv. ráðherra. En ég vil nota tækifærið fyrst þetta mál er komið upp og láta í ljós undrun mína á því að hjá þjóð sem er svo grandvör og vör um sig á allan hátt að hún getur ekki gefið blóðprufu nema upplýsingar um það séu þrídulkóðaðar í sjúkraskrám, skuli æðstu embætti landsins selja upplýsingar um fjármál einstaklinga þessarar sömu þjóðar. Ég veit til þess að fólk sem hefur lent á skrá, t.d. vegna fjárnáms og hefur svo gert upp sín mál, hafi ekki verið tekið út af þessari skrá. Ég hef slíkt dæmi með námsmann hjá LÍN sem var neitað um lán vegna uppáskriftar aðstandanda sem var talinn vanskilamaður af því að hann hafði lent á vanskilaskrá. Sá hafði samt gert upp öll sín mál.

Ég verð að segja að mér finnst ekkert sjálfsagt að svona skrár gangi kaupum og sölum.