Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 15:22:08 (2141)

2001-11-28 15:22:08# 127. lþ. 38.7 fundur 277. mál: #A upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ábendingar þeirra en ég verð að segja að það kemur mér verulega á óvart að allur þessi fjöldi af hv. þm. Samfylkingarinnar hafi ekki heyrt talað um þessa upplýsingagjöf. Hún hefur tíðkast í mjög langan tíma og þykir sjálfsögð. En það er alveg rétt að það þurfa að vera mjög skýrar reglur um það hvernig slíkar upplýsingar eru gefnar. Þess vegna svaraði ég skilmerkilega þessari fyrirspurn um hvaða reglur giltu. Það er ljóst að þar er um að ræða reglugerð, þar er um að ræða lagafyrirmæli, t.d. ákveðið viðskiptasamband milli aðila. Það er sérstök reglugerð sem gildir um þá aðila sem þurfa að sækja um leyfi hjá Persónuvernd og ég upplýsti að það væri einungis þetta eina fyrirtæki sem hefur enn sem komið er fengið þetta leyfi þannig að það eru allar upplýsingar sem koma fram í þessu svari, og svara væntanlega þeim athugasemdum hv. þm. sem hér hafa komið fram.

Það kom fram í samtölum við fulltrúa hjá nokkrum stærstu sýslumannsembættunum, þ.e. Reykjavík, Akureyri og Hafnarfirði, að vel er látið af samskiptunum við fyrirtækið Lánstraust hf. Afhending upplýsinga frá sýslumannsembættunum er almennt eins og fram kemur í svari mínu nema hvað minni embættin senda ekki upplýsingar eins reglulega og stærri embættin. Minni embættin taka mörg hver ekkert fyrir að senda upplýsingar. Það var sérstaklega rætt um kostnaðinn við þessar sendingar þannig að ríkið er ekki að taka of mikið fyrir að ljósrita og senda þessar upplýsingar.

Ég tek undir með hv. þingmönnum í því efni að það er vissulega þörf á því að fara varlega þegar um er að ræða slíkar upplýsingar en ég hef ekki orðið vör við kvartanir út af þessu fyrirkomulagi. Ég veit hins vegar að stundum koma kvartanir til Persónuverndar út af ákveðnum dæmum sem eru þá skoðuð sérstaklega og mér skilst að yfirleitt sé það ekki út af skráningu þessara upplýsinga heldur út af einhverju öðru. Fyrirtækinu Lánstraust hf. ber að skila inn skýrslum og standa nákvæmlega skil á sínum málum gagnvart Persónuvernd. Ég hef aflað mér upplýsinga um það.