Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:33:26 (2157)

2001-11-29 11:33:26# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hóf mál sitt á umfjöllun um atburði á sviði alþjóðamála og það hlýtur að teljast eðlilegt og við hæfi. Staðreyndin er auðvitað sú að að ýmsu leyti lifum við í þeim efnum og höfum gert síðustu vikurnar afar dapurlega tíma. Mér er til efs að fréttatímar fjölmiðla hafi í annan tíma verið jafndapurlegir og drungalegir og þeir hafa verið nú um margra vikna skeið. Það er eiginlega með kvíða sem foreldrar opna fyrir sjónvarpstæki og setja kvöldfréttir á hverju sinni, alla vega þeir sem eiga ung börn á heimilinu því að það líður varla svo kvöld að ekki birtist okkur á skjánum svo hryllilegar myndir af átökum og afleiðingum þeirra í Afganistan, í Palestínu og jafnvel víðar, að slíkar myndir eru vart við hæfi barna.

Í Afganistan eru auðvitað afar alvarlegir hlutir að gerast. Þar er mannfall orðið gífurlegt og hjálparsamtök og alþjóðamannréttindasamtök hafa lýst og lýsa þungum áhyggjum yfir ýmsu sem þar er að gerast í þessum átökum eins og alltaf vill verða þar sem mannréttindi eru fyrir borð borin. Það fyrsta sem fellur, eins og stundum er sagt, er gjarnan sannleikurinn og oft líða mánuðir, ár þangað til smátt og smátt skýrist hvað raunverulega gerðist. Þannig eru til að mynda fréttir síðustu daga af mannfalli í tengslum við uppreisn fanga í fangelsi óhuggulegar og mannréttindasamtök hafa af því miklar áhyggjur að þar séu þverbrotnar allar alþjóðareglur, Genfarsáttmálar og aðrir hlutir um meðferð fanga á stríðstímum og þess gæti jafnvel að mönnum gefist yfir höfuð ekki kostur á því að gefast upp og afhenda vopn sín heldur séu þeir teknir af lífi án dóms og laga og án þess að eiga nokkurn tíma kost á því að öðlast stöðu fanga á stríðstímum og njóta þeirrar verndar sem þeim ber.

Ástandið í Palestínu er sömuleiðis afar dapurlegt og þvert á það sem menn bundu jafnvel vonir við fyrstu dagana eftir atburðina 11. september þá hafa þeir ekki nýst þeim sem þar búa til þess að koma málum í friðsamlegri farveg heldur þvert á móti.

Jafnvel eru teikn á lofti um að í vændum séu og þegar sé hafinn undirbúningur árása á önnur ríki í framhaldi af því að ófriðnum ljúki a.m.k. að mestu leyti í Afganistan og ber þá gjarnan Írak á góma eins og það sé það sem sú hrjáða þjóð þurfi helst á að halda, að styrjaldarátökin sem reyndar hafa meira og minna geisað þar samfellt í 12 ár magnist upp á nýjan leik. Þar er reyndar háð gleymt stríð með loftárásum með nokkuð reglubundnu millibili og allir vita þær þjáningar sem íraska þjóðin hefur liðið vegna viðskiptabanns sem staðið hefur í meira en áratug.

Þessir atburðir, herra forseti, og reyndar ýmsar breytingar í alþjóðastjórnmálum sl. 10--12 ár hafa haft mikil áhrif á umræður á alþjóðavettvangi um öryggismál. Það er síður en svo að allt sé neikvætt sem gerst hefur í þeim efnum. Þvert á móti hefur að mínu mati umræðum um þessa hluti að ýmsu leyti fleygt fram frá því að múrinn féll og Varsjárbandalagið og Sovétríkin leystust upp. Þannig hafa menn t.d. beint sjónum að ýmsum öðrum þáttum sem skipta máli í sambandi við öryggi og frið en hinum hernaðarlega þætti einum sem mest var til umfjöllunar á tímum kalda stríðsins. Öryggishugtakið hefur öðlast nýja merkingu, breiðari og víðari merkingu og menn hafa einnig í vaxandi mæli, til að mynda á Norðurlöndum, reynt að beina sjónum að möguleikum til fyrirbyggjandi og borgaralegra aðferða í sambandi við lausn deilumála eða það að hindra að deilur stigmagnist og endi í blóðugum átökum.

Ég minni á það starf sem unnið hefur verið á vettvangi Norðurlandaráðs síðustu mánuði og skilað sér í þessari skýrslu um borgaralegar og friðsamlegar aðgerðir til að eiga við deilumál og fyrirbyggja að slíkar deilur stigmagnist. Norðurlandaráð afgreiddi ályktun í þessa veru á þingi sínu í Kaupmannahöfn á dögunum sem ég tel fulla ástæðu til að minna á og vekja athygli á inn í þetta samhengi.

Á bls. 4 í ræðu sinni talar hæstv. utanrrh. um nauðsyn þess að lausn finnist á svæðisbundnum ágreiningsmálum sem oft séu rót þess haturs sem öfgamenn byggi tilveru sína á. Þessu er ég að sjálfsögðu sammála en hefði getað hugsað mér að þarna væri farið dýpra í hlutina og rætt um þau margbreytilegu vandamál, þær aðstæður misskiptingar, kúgunar, mannréttindabrota og vonleysis og örbirgðar, ekki síst meðal ungs fólks sem víða verða jarðvegur fyrir ofbeldis- og ofstækishugsunarhátt sem aftur býður heim hættunni á því að öfgamenn geri út á þessar aðstæður og afli sínum vonda málstað stuðnings til hefndarverka eða glæpaverka.

Herra forseti. Það verður líka að segjast eins og er að mér finnst ekki skynsamlegt að fjalla af algerlega gagnrýnislausum fögnuði um það sem menn kalla hina víðtæku alþjóðlegu samstöðu núna um baráttu gegn hryðjuverkum. Hverjir eru bandamenn Vesturlanda í þessum leiðangri núna? Hverju eru helstu bandamenn Bandaríkjamanna og Breta um þessar mundir? Það eru Rússar, Kínverjar og Pakistanar ef nefna ætti þrjár mikilvægustu þjóðirnar í þessu sambandi fyrir utan kannski Úsbeka og Tadsjika. Og hvernig er mannréttindaástandið í þessum löndum? Hafa engir áhyggjur af því að þessar þjóðir séu reiðubúnar í samstöðunni og tilbúnar í leiðangurinn vegna þess að þær hugsi gott til glóðarinnar að berja á sínum eigin uppreisnarhópum sem þær þar með ákveða að skilgreina sem hryðjuverkamenn. Rússar rembdust við það að skilgreina uppreisnaröflin í Tsjetsjeníu sem hryðjuverkamenn en ekki var á þá hlustað á Vesturlöndum fyrr en núna. Nú er allt í einu allt gjörbreytt. Og Kínverjar sýna þess þegar merki að þeir ætla að nota sér aðstæðurnar til þess að berja enn rækilegar á hópum í Mongólíu, Tíbet og víðar sem þeir hafa reyndar ástundað um árabil.

Það er alveg nýtt fyrir mér ef Pakistan hefur þroskast svo í þessum efnum á örfáum mánuðum að við getum tekið samstöðu með þeim fagnandi og þurfum ekki að hafa áhyggjur af ýmsu sem gerist í bakgarði þeirra, t.d. samskiptum þeirra og Indverja og erum við nokkuð að gleyma því að þarna eru tvö nýjustu kjarnorkuveldi heimsins á ferðinni. Sömuleiðis um suðausturríki eða lýðveldi Sovétríkjanna sálugu, Úsbekistan, Tadsjikistan og önnur slík, þá eru það líka nýjar gleðifréttir ef ástand mannréttindamála þar á bæ er þannig að við getum fyrirvaralaust og af fölskvalausri gleði tekið þau í hóp okkar sem bandamenn vestrænna lýðræðisþjóða. Ætli það hafi ekki verið nóg, herra forseti, að vera í því bandalagi með Tyrklandi sem Vesturlönd hafa lengi verið með í NATO og mættu menn hafa nokkurn kinnroða af hvernig þeir hafa fengið að berja t.d. á Kúrdum árum og áratugum saman og menn hafa ævinlega sett kíkinn upp að blinda auganu á Vesturlöndum af því að það hefur hentað að hafa ekki hátt um það.

Ég fagna orðum hæstv. utanrrh. um rétt Palestínumanna til stofnunar sjálfstæðs ríkis og ef því fylgdi stuðningur við kröfu þeirra og mjög margra þjóða um að reynt verði að koma málum þannig fyrir að alþjóðlegt friðargæslulið fari til botns Miðjarðarhafsins þá teldi ég að fullur sómi væri orðinn að afstöðu Íslands í þessu máli. Það ber að taka það fram sem vel er gert og ég tel að hæstv. utanrrh. eigi hrós skilið fyrir það að hann hefur bæði hér heima og einnig á alþjóðavettvangi, eins og í ræðu sinni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, lyft fram stuðningi við sjálfstætt ríki Palestínumanna.

Um Evrópumálin vil ég segja að þar er athyglisverður kafli í ræðu hæstv. utanrrh. á bls. 6 í hinu prentaða handriti þar sem komið er inn á möguleikann á endurskoðun EES-samningsins og ég mun þá nota tækifærið og svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni lítillega í leiðinni. Ég tel að það sé að sjálfsögðu eins og aðstæðurnar eru og blasa við okkur mjög áhugavert efni hvort forsendur skapist fyrir uppfærslu EES-samningsins. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, a.m.k. sá sem hér talar sem einn sat á þingi þingmanna flokksins þegar EES-samningurinn var afgreiddur, studdi hann ekki frekar en hæstv. utanrrh., greiddi reyndar atkvæði gegn honum --- en við höfum heldur ekki verið með kröfur um að þessum samningi yrði sagt upp vegna þess einfaldlega að hann er okkar grundvöllur þessara samskipta eins og málin eru og að sjálfsögðu eiga menn og verða menn að líta á það eins og það er hvaða afstöðu sem menn höfðu til þess á sínum tíma. Mér finnst satt best að segja ekki hafa mikið upp á sig að eyða orkunni í að vera að reyna að elta menn uppi eins og mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson hálfpartinn vera að reyna að gera vegna þeirra aðstæðna sem voru uppi á Alþingi fyrir næstum tíu árum síðan og þeirrar afstöðu sem menn þá tóku. Það verður ævinlega að muna eftir því að skoða hlutina í ljósi þeirra aðstæðna sem voru á hverjum tíma. Atburðirnir eru börn síns tíma eins og það heitir í sögunni og það ættu allir sanngjarnir menn að virða í umfjöllun um þessi mál.

Afstaða okkar til þessara framtíðarsamskipta við Evrópusambandið er alveg skýr. Við erum ekki með kröfur um að samningnum við EES verði sagt upp og í staðinn komi tvíhliða samningur eins og mér fannst hálfpartinn hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafa misskilið þetta. Ef hv. þm. hefur fyrir því að lesa till. til þál. um stefnu í alþjóðasamskiptum þá kemur þar alveg skýrt fram að það sem við teljum að eigi að stefna á er einföldun þessara samskipta í þágu þess að Ísland er lítið ríki og það eigi að stefna á þróun í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu. Og m.a. endurskoðun eða uppfærsla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gæti að einhverju leyti falið í sér að mínu mati slíka þróun mála því að það er auðvitað algerlega ljóst að það væri til hagsbóta fyrir Ísland sem lítið ríki með takmarkaða burði og möguleika til þess að taka þátt í hinu gríðarlega flókna og viðamikla stofnana- og nefndakerfi Evrópusambandsins ef hægt væri að finna þessum samskiptum einfaldara form, ég tala nú ekki um ósköpin ef hlutir breyttust t.d. með þeim hætti að Noregur heltist úr lestinni en við kysum áfram að standa utan Evrópusambandsins.

Fróðlegt væri að heyra hæstv. utanrrh. fjalla aðeins nánar um það sem drepið er á og orðað er þannig að vísbendingar hafi borist um að ESB kunni nú að vera reiðubúið að ræða takmarkaða tæknilega endurskoðun samningsins.

Ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að afar fróðlegt væri að fá nánari útlistun á því hverja hæstv. utanrrh. telji vera möguleikana í þessu sambandi og einnig hvað hæstv. utanrrh. geti sagt okkur um samstöðu Íslands og Noregs í þessu sambandi. Nú kunna þar að vera að einhverju leyti viðkvæmir hlutir á ferð sem við höfum fullan skilning á að hæstv. utanrrh. geti kannski ekki hér í heyranda hljóði fjallað um í nákvæmum smáatriðum, og þá það. En hæstv. utanrrh. ætti eitthvað að geta um þetta fjallað. Ég vísa til þess að héðan er nýfarinn heim til gamla landsins nýskipaður utanrrh. Noregs, Jan Petersen, sem ég vænti að hæstv. utanrrh. hafi átt áhugaverð samtöl við og þá m.a. og ekki síst um þetta því að ekki trúi ég því að menn hafi notað heilan fund í að rífast um það hver ætti að fá að vera næsti embættismaður Eftirlitsstofnunar ESA.

Varðandi það sem sagt er um gjaldmiðlamálin þá væri svo sem einnig fróðlegt að fara inn á það. Ég hef að sumu leyti ekki alveg áttað mig á þeirri umræðu sem keyrð hefur verið upp af ýmsum aðilum um evruna ósköp einfaldlega vegna þess að ef ég veit rétt og ég veit ekki annað en menn séu sammála um það þá er forsenda þess að taka hana upp aðild að Evrópusambandinu og mér finnst þar af leiðandi sérkennilegt að taka upp umræður um mögulega upptöku evrunnar og setja hana í samhengi við nákvæmlega núverandi aðstæður í efnahags- eða gengismálum á Íslandi. Sé þetta svona að forsenda evrunnar sé aðild að Evrópusambandinu þá vitum við öll að það er langt inni í framtíðinni og kemur ekki á nokkurn hátt til með að hafa áhrif á nákvæmlega núverandi aðstæður í efnahags- eða gengismálum þjóðarinnar og þá eiga menn líka að ræða málið eins og það er og taka grundvallarspurninguna upp á borðið sem er þá um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu í heild sinni, pakkann eins og hann leggur sig með kostum og göllum og kostnaði þar með töldum. Svona, herra forseti, hef ég talið að áhugaverðast væri að ræða þetta.

Um stækkun Evrópusambandsins og stöðu bókunar 9 þá er þar sömuleiðis mjög stórt og mikilvægt hagsmunamál á ferð, ekki síst vegna mögulegra framtíðarviðskipta okkar við austanverða Evrópu. Ég er í hópi þeirra sem hafa bundið vonir við að þar kynnu að skapast á nýjan leik að sumu leyti einhverjir vænlegustu framtíðarmarkaðir fyrir afurðir Íslendinga, t.d. úr uppsjávarfiskum sem við gætum unnið í miklu magni á verði sem gengi inn á þessa markaði. En til þess þurfa auðvitað viðskiptakjörin að vera í lagi þannig að ég deili þeirri skoðun með hæstv. utanrrh. að þar sé mikilvægt mál á ferð.