Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 11:58:08 (2162)

2001-11-29 11:58:08# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[11:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir að sönnu miður ef hv. þm. þykja ræður mínar bragðdaufar. En þá eru það bara örlög mín að verða ekki krydd í sálarlífstilveru hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það verður þá bara að hafa það. Þann kross verð ég þá að bera í gegnum lífið og ég held að þeir hafi áður hvílt þyngri á mínum herðum heldur en þeir að ég geti ekki dagsdaglega lífgað þannig upp á sálarlíf hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að það jafngildi krydduðum asískum mat eða öðru því um líku.

Varðandi afstöðu okkar til Evrópusambandsins þá höfum við að vísu ekki gefið út tilkynningar um það daglega að við séum að vinna að þessu máli. Fyrir okkur er stefnumótun í samskiptum Íslands við önnur lönd og samskipti okkar við Evrópusambandið rétt eins og önnur málefnabundin verkefni í okkar stjórnmálaflokki, að við erum alltaf að ræða þau og skoða eftir atvikum.

Löngu áður en Samfylkingin tilkynnti þjóðinni að hún ætlaði að fara að vinna í þessu máli þá höfðum við gert það. Hér hefur verið flutt á þingi tillaga með ítarlegri greinargerð þar sem farið mjög rækilega yfir röksemdir með og á móti aðild að Evrópusambandinu á mörgum blaðsíðum. Sú greinargerð var endurskoðuð í beinu framhaldi af því að utanrrh. lagði skýrslu fyrir Alþingi fyrir einu og hálfu ári og þar er þetta talið upp, í kafla í greinargerðinni um Ísland og Evrópusambandið. Þar er rætt um að óvissan sé skaðleg íslenskum hagsmunum. Þess vegna höfum við verið talsmenn þess að koma þessu í eins skýran farveg og hægt væri til einhverra ára þannig að hagsmunaaðilar vissu að hverju þeir gengju með stefnu íslenskra stjórnmála. Rök með og á móti eru síðan talin upp og ókostir aðildar, sem við leggjumst gegn, eru taldir upp og rökstuddir í átta töluliðum.

Varðandi tvíhliða samning, þá hvet ég hv. þm. til að lesa sjálfa tillögugreinina en þar segir að vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu. Þetta er nokkurn veginn íslenska sem ég held að hljóti að vera skiljanleg fyrir hv. þm.